Eitt stærsta og vinsælasta safn landsins, Skógasafn, auglýsir nú eftir forstöðumanni, en Sverrir Magnússon, sem stýrt hefur safninu frá 1999, er að láta af störfum.
Skógasafn á sér næstum sjö áratuga sögu. Það var stofnað 1. desember 1949 sem Byggðasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga, en hefur síðan vaxið hratt og er starfsemin orðin margbrotin. Hlutverk safnsins er söfnun, varðveisla og sýning á menningarminjum úr sýslunum tveimur í því skyni að varpa ljósi á líf og starf íbúa þeirra.
Nú tilheyrir Skógasafni byggðasafn með fjórum deildum, umfangsmikið húsasafn á stóru útisýningarsvæði og samgöngusafn ásamt minjagripaverslun og veitingastað. Héraðsskjalasafn er einnig í umsjá Skógasafns. Gestafjöldi í fyrra var um 75 þúsund manns.