VR lítur svo á að forsendur kjarasamninga séu brostnar og að öllu óbreyttu beri að segja þeim upp. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem stjórn og trúnaðarráð VR samþykkti á fundi sínum fyrr í kvöld.
„Augljóst má vera að aðrir launahópar hafa fengið launahækkanir sem eru umfram þær hækkanir sem félagar í VR hafa fengið á viðmiðunartímabili gildandi kjarasamninga,“ segir í ályktuninni.
VR krefst þess að kjarasamningar verði endurskoðaðir þannig að forsenduákvæði haldi, annars komi til uppsagnar. Þá er formanni VR, Ragnari Þór Ingólfssyni, veitt fullt umboð til þess að meta slíkt ef tilboð er lagt á borð samninganefndar á morgun.
„Komi ekkert ásættanlegt tilboð sem rétt getur af þann forsendubrest sem orðið hefur leggur trúnaðarráð VR til að samningum verði sagt upp áður en að frestur til þess rennur út og þá verði krafa okkar í viðræðum sú að laun hækki í samræmi við ákvörðun kjararáðs um hækkun þingmanna og æðstu embættismanna ríkisins,“ segir í ályktun stjórnar og trúnaðarráðs VR.