Karlmaður á fimmtugsaldri, Gunnar Rúnar Gunnarsson, hefur verið ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður tveggja einkahlutafélaga staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Nemur upphæð brotanna um 4,5 milljónum króna.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Gunnar Rúnar, sem áður hafði breytt nafni sínu í Gunnar Finnur Egilsson, kemst í kast við lögin, en hann er margdæmdur fyrir fjársvik og kynferðisbrot gegn börnum og andlega veikri konu. Þá var hann annar tveggja manna sem voru nefndir „útfararstjórar“ í sjónvarpsþættinum Brestum, en þeir höfðu tekið við stjórn fjölda fyrirtækja áður en þau fóru í þrot til að koma í veg fyrir að nöfn fyrri eigenda væru tengd við þrotið.
Þá var Gunnar einn þeirra sem ákærðir voru í ótrúlegu fjársvikafarsamáli sem rekið var fyrir héraðsdómi í desember. Beðið er dóms í því máli, en það teygði anga sína meðal annars til Suður-Kóreu, Hong Kong og Ítalíu.
Í þessu nýjasta máli sem Gunnar er ákærður í er hann auk þess talinn hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald í samræmi við kröfur laga. Farið er fram á að Gunnar verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.