Við Birtingakvísl í Árbæ gistu tveir erlendir ferðamenn í tjaldi á húsalóð aðfaranótt mánudags, við afar takmarkaða kátínu íbúa.
„Það er eldri kona hérna í næstu íbúð og hún var orðin pínu hrædd. Þeir höfðu lagt bakpoka sína fyrir utan tjaldið og breitt dúk yfir þá þannig að það var eins og það væri einn maður þar. Hún hélt að þetta væru íslenskir útigangsmenn,“ segir Heimir Jónsson, íbúi í húsinu, sem rak mennina í burtu. Þeir voru viðkunnanlegir og sennilega frönskumælandi, að sögn Heimis.
„Þeir komu um hálfeitt og tjölduðu þarna og vöknuðu svo bara í hádeginu. Þá fóru þeir að éta flatkökur og prótínstykki.“
Heimir fór og ræddi við mennina og sagði þeim að hafa sig á brott hið fyrsta, annars yrði lögregla kölluð til. Hann segir mennina hafa orðið hálfhissa þegar hann rak þá burt af náttstað sínum.
„Þeir töluðu ekkert rosalega góða ensku, ég var að reyna að útskýra fyrir þeim að taka með sér ruslið og það gekk erfiðlega.“
Mennirnir voru fótgangandi og Heimir segir líklegast að þeir hafi ætlað að húkka sér far út úr borginni, en Ártúnshöfðinn mun vera mjög vinsæll „húkkstaður“ erlendra ferðamanna, jafnvel undir lok febrúarmánaðar.