Yfirheyrðir vegna innbrots í Garðabæ

Sex lögreglubílar voru sendir á vettvang þegar tilkynning barst um …
Sex lögreglubílar voru sendir á vettvang þegar tilkynning barst um innbrot í heimahús í Garðabæ í morgun. mbl.is/Eggert

Yfirheyrslur standa nú yfir tveimur karlmönnum sem handteknir voru í morgun, grunaðir um inn­brot í heima­hús við Dalsbyggð í Garðabæ.

Frétt mbl.is: Innbrotsþjófar handteknir í Garðabæ

Rann­sókn máls­ins er enn á frum­stigi og samkvæmt upplýsingum frá Sævari Guðmundssyni, aðalvarðstjóra lögreglunnar í Hafnarfirði, er talið að mennirnir tengist innbrotahrinu sem staðið hefur yfir á höfuðborgarsvæðinu undandarna mánuði, meðal annars í Garðabæ.

Mennirnir eru af erlendum uppruna og segir Sævar að líklega sé um fleiri menn að ræða sem tengjast innbrotunum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tilkynnti nágranni mennina tvo sem voru að reyna að komast inn í húsið við hlið nágrannans og sýndist honum að mennirnir væru komnir inn í húsið. Svo reyndist ekki vera en þegar lögreglan kom á staðinn hlupu mennirnir af vettvangi og voru handteknir. Alls voru sex lögreglubílar sendir á vettvang.

Rannsókn málsins mun halda áfram að yfirheyrslum loknum og verður þá tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir tvímenningunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert