„Það voru allir sammála um það á fundinum að á þessu þyrfti að taka og bregðast öðruvísi við. Að það væri óásættanlegt að það væri ekki vitneskja um þetta og að þetta færi óátalið í gegn,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Á fundi nefndarinnar í morgun var rætt um hergagnaflutninga í ljósi fréttar Kveiks í gærkvöldi um að íslensk stjórnvöld hafi brotið sáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að veita leyfi fyrir flutningi Air Atlanta Iceland á hergögnum.
Samgönguráðherra fór yfir málið á fundinum í morgun ásamt starfsmönnum utanríkisráðuneytisins. Upplýst var um breytt verklag og áætlun sem er í gangi um að breyta núverandi reglugerð hvað hergagnaflutninga snertir.
„Það var lagt á það áherslu að utanríkisráðuneytið komi nánar að aðkomu svona leyfa og undanþága,“ segir Áslaug Arna og kveðst vera ánægð með viðbrögðin sem hafa komið frá forsætis- og samgönguráðherra í málinu. „Það er verið að bregðast hratt og örugglega við þessu.“