Áfram byggt upp á Keflavíkurflugvelli

Björn Óli forstjóri Isavia segir að uppbyggingin á Keflavíkurflugvelli hafi …
Björn Óli forstjóri Isavia segir að uppbyggingin á Keflavíkurflugvelli hafi gengið vel hingað til. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við byrjuðum fyrir mörgum árum síðan, strax árið 2014, að hugleiða hvar við gætum tekið lán og við erum svo heppnir að vera með góða aðila á Íslandi sem geta veitt okkur lán. En svo hófum við viðræður við Fjárfestingarbanka Evrópu um hvort þeir hefðu áhuga á að koma að þessu,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sem í dag skrifaði undir lánssamning við bankann um 12,5 milljarða fjármögnun til uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli.

„Síðasta árið hefur orðið ákveðið „breakthrough“ í að komast til enda með þetta og síðustu mánuðir hafa farið í formlega hluti,“ segir Björn Óli. Lánað er til tuttuga ára, en afborganir af láninu hefjast ekki fyrr en eftir fimm ár.

Fjárfestingarbanki Evrópu hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum hérlendis allt frá árinu 1995 og hefur alls lánað íslenskum aðilum yfir einn milljarð evra. Stærstu fjárfestingar bankans hérlendis hingað til hafa verið í verkefnum tengdum endurnýjanlegri orku, en þessi lánveiting til Isavia er með þeim stærri sem hérlendir aðilar hafa fengið frá bankanum, en yfirlit yfir þær má finna hér.

Sem áður segir fer féð til uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli, sem staðið hefur yfir undanfarin ár. Að sögn Björns Óla hefur uppbyggingin í samræmi við hið svokallaða „masterplan“ Keflavíkurflugvallar gengið vel hingað til.

„Stjórnin er búin að samþykkja framhald á „masterplaninu“ sem við köllum á góðri ensku „major developments plan“,“ segir Björn Óli, en í því felst að stjórnin hefur samþykkt að tengja saman norður- og suðurbygginguna í eina byggingu.

„Þeir sem hafa farið í gegnum nýja passaskoðunarsvæðið sjá hvernig byggingin verður. Hún verður byggð upp á norðurbyggingunni og svo verður bætt við veitingasvæðið. Þar verður hjartað í byggingunni þegar við förum að byggja stóru bygginguna til austurs,“ segir Björn Óli.

Djarfar áætlanir fortíðar virðast í dag hafa verið mikil fyrirhyggja

Forstjórinn segir að hið upprunalega „masterplan“ hafi „kannski verið full djarft“ á þeim tíma sem það var kynnt árið 2015, en fjölgun flugfarþega hafi síðan orðið slík að nú virðist sem menn hafi sýnt mikla fyrirhyggju.

„Það er alveg ljóst að við hefðum ekki getað staðið undir þessari aukningu miðað við þann fjölda farþega sem var í gangi [árið 2015]. En í dag lítur út þetta út fyrir að hafa verið frábær ákvörðun og að við höfum verið voðalega meðvitaðir um mörghundruð prósent aukningu í farþegafjölda, sem við vorum ekki. Þannig að þetta var smá heppni,“ segir Björn Óli og hlær.

Björn og Andrew McDowell, aðstoðarframkvæmdastjóri Fjárfestingarbanka Evrópu undirrita samninginn í …
Björn og Andrew McDowell, aðstoðarframkvæmdastjóri Fjárfestingarbanka Evrópu undirrita samninginn í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að halda verði áfram uppbyggingunni í takt við áætlanir ef hægt eigi að verða að halda fjölgun ferðamanna á Íslandi áfram og ef að stóru íslensku flugfélögin ætli sér að keppa áfram af krafti og verða stórir aðilar bæði á Evrópu- og Ameríkumarkaði.

Í fréttatilkynningu um lánveitinguna segir að þessir 12,5 milljarðar uppfylli lánsfjárþörf Isavia fyrir árið 2018.

En hver árleg fjárfestingarþörf og hvernig gengur að fjármagna framhaldið?

„Hún er svolítið mismunandi á meðan við erum í þessum framkvæmdum. Ég myndi segja að hún væri svona á bilinu 10-15 milljarðar,“ segir Björn Óli.

Hann segist vita af miklum áhuga hjá fjárfestum innanlands og utan að því að koma að verkefninu og Isavia reyni að leita bestu kjaranna, en lánið frá Fjárfestingabanka Evrópu mun vera mjög hagstætt.

Farþegum hefur þótt þröngt á flugvellinum

Aðspurður segir Björn Óli að pressan á framkvæmdahraða hafi aukist samfara mikilli aukningu í fjölda flugfarþega.

„Já, við getum sagt það. Það er ákveðin pressa sem er að aukast en  menn gera sér alveg grein fyrir hraðanum sem er í þessu. Það tekur tíma að byggja byggingar af þessari tegund.“ Hann segir aðkallandi að byggja við núverandi byggingu og ljúka því, svo hægt sé að hefja framkvæmdir við „stóru bygginguna“ sem rísa mun austan við flugstöðina og breyta ásýnd flugstöðvarinnar verulega miðað við þær áætlanir sem gerðar hafa verið.

„Það munu verða miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli næstu árin,“ segir Björn Óli, en það hafa svo sem verið miklar framkvæmdir síðastliðin tvö ár líka. Hann segir það hafa komið á óvart hversu jákvæðir farþegar hafi verið gagnvart framkvæmdum á flugvellinum.

„Ég held að farþegar muni ekki finna meira fyrir þessum framkvæmdum en þeir hafa fundið fyrir framkvæmdum síðustu tveggja ára. Við munum ekki fara inn í bygginguna nema að takmörkuðu leyti, við svona byggjum í kringum hana,“ segir Björn.

„Við vitum það þó að farþegum hefur stundum þótt vera alltof mikið af fólki inni í byggingunni og það er þröngt og ég viðurkenni það, en það er þess vegna sem við erum að fara í þessar framkvæmdir.“

Hvassahraun áhugaverður kostur

Björn segir flugvöll í Hvassahrauni vera framkvæmd sem Isavia sé tilbúið að skoða að koma að með því að deila þeirri þekkingu sem er til staðar innan fyrirtækisins. Uppbygging á komandi árum þar megi þó ekki stoppa af framkvæmdir og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar til framtíðar.

Hvassahraun. Ekki er útilokað að hér verði flugvöllur í framtíðinni.
Hvassahraun. Ekki er útilokað að hér verði flugvöllur í framtíðinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Forstjóri Icelandair sagði það mjög greinilega að uppbyggingin í Keflavík megi ekki stoppa fyrir mögulegri framtíðaruppbyggingu í Hvassahrauninu nema menn vilja að flæðið í gegn stoppi,“ segir Björn Óli.  

„Það tæki mörg ár að byggja Hvassahraun. Það er full ástæða til að skoða það og ég held að það gæti verið mjög gaman, en ef við viljum ekki stoppa vöxt Íslands sem ferðamannalands, þá verðum við að halda áfram í Keflavík.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert