Dugar útspil ríkisstjórnarinnar?

Sigurður Bessason formaður Eflingar á fundi Flóabandalagsins í gærkvöldi.
Sigurður Bessason formaður Eflingar á fundi Flóabandalagsins í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Gildi kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum er í mikilli tvísýnu, en ögurstund rennur upp í dag. Frestur Alþýðusambands Íslands til að ákveða hvort samningum verði sagt upp eða hvort þeir verði látnir gilda áfram til næstu áramóta, rennur út kl.16. Óvíst er hvort útspil ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í gær, dugar til þess að samningar haldi.

Formlegt vald til að segja upp samningunum er í höndum átta manna samninganefndar ASÍ sem skipuð er forseta, formönnum landssambanda og stærstu aðildarfélaga. Hún kemur saman nú í morgunsárið og fundar áður en allir formenn aðildarfélaga ASÍ koma saman til formannafundar kl. 11. Það er samninganefndarinnar að ákveða hvort hún framselur umboð sitt til að segja upp samningunum til formannafundarins. Samkvæmt upplýsingum á vef ASÍ þarf einróma samþykki í samninganefndinni til að niðurstaðan verði skuldbindandi.

„Tillögur ríkisstjórnarinnar bæta ekki upp þann forsendubrest sem við teljum að hafi orðið og þess vegna samþykktum við það á miklum stemningsfundi hjá trúnaðarráði að segja samningnum upp,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Hann mun því ganga inn í daginn með þau skilaboð að segja upp kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vildi seint í gærkvöldi ekki segja margt um framangreind ummæli formanns VR. „Þessir samningar eru á milli ASÍ og SA og það verður bara niðurstaða á morgun [í dag] og ég tel að stjórnvöld hafi sýnt alveg skýran pólitískan vilja til að efla félagslegan stöðugleika og eiga samtal, en síðan verður bara hreyfingin að meta það,“ sagði Katrín í samtali við Morgunblaðið.

Stjórnvöld sýndu spilin

Ríkisstjórnin kom saman í gær og síðdegis voru helstu verkalýðsleiðtogar boðaðir á fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þar voru þeim kynntar þær aðgerðir sem stjórnvöld lýsa sig reiðubúin til að standa að á vinnumarkaði.

Þetta útspil kom áður en flest stærstu verkalýðsfélögin funduðu um hvaða skilaboð formenn þeirra myndu fara með inn í morgundaginn. Forsætisráðherra segir við Morgunblaðið að tillögurnar sýni skýran pólitískan vilja ríkisstjórnarinnar til þess að „halda áfram þessu góða samtali sem við erum búin að eiga við verkalýðshreyfinguna og SA um það hvernig við getum skapað betri umgjörð um vinnumarkaðinn.“

„Í fyrsta lagi leggjum við fram tvennt sem við getum sagt að sé mjög áþreifanlegt; hækkun atvinnuleysisbóta og hækkun greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa. Þessi atriði eru meðal þess sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að þurfi að lagfæra í samtölum sínum við okkur,“ segir Katrín. Hún segir kostnað við hækkun atvinnuleysisbóta nema 2,4 milljörðum á ársgrundvelli og hækkun hámarksgreiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa 200 milljónum. Við útreikningana segir hún að stuðst hafi verið við núverandi tölur um atvinnuleysi, en í framhaldinu þurfi að boða til samtals um það hvert jafnaðar-atvinnuleysistryggingagjaldið þurfi að vera til að standa undir þeim sveiflum sem kunna að verða í atvinnuástandi. Atvinnuleysisbætur hækka upp í 90% af lægstu launum fyrir dagvinnu og verða því 270.000 kr. m.v. að lægstu laun séu 300.000 kr. Þetta hlutfall er í dag um 76%, segir Katrín.

„Síðan leggjum við það til að við munum eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um mögulegar breytingar, skattkerfisbreytingar og samspil þeirra við bótakerfið,“ segir Katrín og nefnir barnabætur, húsnæðisstuðning og persónuafslátt í því samhengi. Sérstaklega verði horft til aðgerða sem gætu komið lágtekjuhópum og þeim sem eru í lægri millitekjuhópum til góða.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í gær er opnað á að samhliða hækkun atvinnuleysisbóta verði hafið samtal um aðra hluti þeim tengda, þar á meðal styttingu bótatímabilsins niður í 24 mánuði.

„En það eru engar ákvarðanir sem hafa verið teknar um það, þetta er bara mál sem við setjum á dagskrá í þessu samtali,“ segir Katrín.

Óvíst hvort samningar haldi

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji útspil stjórnvalda vera mikilvægt innlegg inn í umræðuna, þó að með því hafi ekki allar óskir ASÍ orðið að veruleika.

„Það er engin launung á því að við hefðum gjarnan viljað sjá breytingar á fæðingarorlofskerfinu og hækkun greiðslna þar og eins viljað hafa eitthvað aðeins fastara í hendi varðandi tengingu persónuafsláttar við launavísitölu frekar en vísitölu neysluverðs, en engu að síður eru þarna fyrirheit um að setja í gang vinnu og umræðu um að fara í skattkerfisbreytingar sem myndu gagnast þeim tekjulægstu,“ segir Gylfi.

Hvort útspilið dugi til þess að kjarasamningarnir haldi verði þó að koma í ljós í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert