Heimildir til flutnings hergagna með íslenskum loftförum hafa á undanförnum árum verið veittar fimm til tíu sinnum á ári en áfangastaður slíks farms hefur aldrei verið Sýrland eða annað átakasvæði.
Þetta kemur fram í svari Samgöngustofu við fyrirspurn mbl.is í framhaldi af frétt Kveiks í gærkvöldi um að íslensk stjórnvöld hafi brotið sáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að veita leyfi fyrir flutningi Air Atlanta Iceland á hergögnum.
Baldvin M. Hermannsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Air Atlanca Iceland, greindi frá því í samtali við mbl.is fyrr í dag að fyrirtækið hafi ekki hafa flogið með nein hergögn það sem af er þessu ári og að flugferðirnar á síðasta ári hafi verið innan við tíu talsins.
Í svari Samgöngustofu kemur einnig fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi síðasta haust verið falið að skoða hvort upplýsingalög og lög um stofnunina heimili veitingu nákvæmari upplýsinga um áfangastaði en niðurstaða þar um liggi ekki enn fyrir.
Sömuleiðis er greint frá því að frá og með nóvember í fyrra hafi umsóknargögn sem berast varðandi veitingu leyfa til íslenskra flugrekenda utan loftrýmis Íslands verið send til úrvinnslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem tekur ákvörðun.
Í svarinu er bent á að reglugerð nr 937/2005 um flutning hergagna með loftförum sé í endurskoðun hjá ráðuneytinu.