Isavia hefur tryggt sér 12,5 milljarða króna lán frá Fjárfestingabanka Evrópu. Verður fjármagnið nýtt til endurnýjunar á núverandi mannvirkjum og til afkastaaukningar á Keflavíkurflugvelli til þess að mæta auknum fjölda farþega. Samningurinn var undirritaður rétt í þessu í húsakynnum Sendinefndar Evrópusambandsins í Aðalstræti.
Í fréttatilkynningu segir að samningurinn uppfylli lánsfjárþörf Isavia fyrir árið 2018 og haft er eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia að ánægjulegt sé að sjá Fjárfestingabanka Evrópu á meðal lánveitenda félagsins. Hann segir jafnframt að Isavia geri sér miklar vonir um áframhaldandi samstarf við bankann.
„Framundan er mikil uppbygging á Keflavíkurflugvelli og stuðningur og skilningur lánveitenda skiptir því sköpum fyrir Isavia,“ er haft eftir Birni Óla.
Andrew McDowell, aðstoðarframkvæmdastjóri bankans og yfirmaður verkefna hans í EFTA-ríkjunum segir Fjárfestingabanka Evrópu hafa lánað til íslenskra verkefna allt frá árinu 1995. „Með þessum samningi nær bankinn þeim áfanga að hafa lánað einn milljarð evra til íslenskra verkefna, en af því erum við mjög stolt,“ er haft eftir McDowell í tilkynningu.
Evrópski fjárfestingarbankinn er langtíma lánastofnun Evrópusambandsins og í eigu aðildarríkja þess. Hann fjármagnar traustar fjárfestingar til lengri tíma í því skyni að vinna stefnu Evrópusambandsins brautargengi, að því er segir í tilkynningu til fjölmiðla sem deilt var við undirritunina.
Fyrirætlanir Isavia um þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2040 voru kynntar árið 2015 og gert var ráð fyrir því að heildarkostnaður við fyrsta áfanga uppbyggingarinnar, sem kölluð hefur verið „masterplan“, yrði um 70-90 milljarðar íslenskra króna.
Ekki var gert ráð fyrir að íslenska ríkið sem eigandi Isavia þyrfti að leggja fjármuni til framkvæmdanna, þar sem möguleikar Isavia til fjármögnunar væru góðir og einnig væru til staðar tækifæri sem tengjast aðkomu annarra að Isavia.