Manns leitað í íshelli í Hofsjökli

Ljósmynd/Páll Gíslason

Björgunarsveitir af Norður- og Suðurlandi ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar með reykkafara frá Ísafirði eru nú á leið í íshelli í Blágnípujökli í suðvestanverðum Hofsjökli og eru björgunarsveitarmenn komnir á staðinn. Sett hefur verið upp aðgerðastjórnstöð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi.

Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi að leitað sé að karlmanni sem mun hafa farið inn í hellinn en ekki skilað sér þaðan aftur. Aðgerðin er umfangsmikil að sögn lögreglunnar en öll vinna í hellinum muni þurfa að fara fram með aðfluttu lofti til björgunarmanna vegna hárra brennisteinsgilda.

Lögreglan fékk tilkynninguna um klukkan 18:00 í dag frá samferðafólki mannsins. Fyrstu björgunarsveitarmenn eru að koma á staðinn með þyrlunni. Gripið var til þess ráðs að manna þyrluna með reykköfurum frá Ísafirði vegna þess að hún var stödd þar þegar útkallið kom.

Fram kemur að ekki sé vitað hvað valdi því að maðurinn hefur ekki skilað sér til baka úr hellinum.

Uppfært kl. 20:10: 

Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin á staðinn með fyrstu björgunarsveitarmennina. Björgunarsveitarmenn úr Reykjavík hafa verið kallaðir út. Gert er ráð fyrir að þeir noti vélsleða til þess að komast á staðinn.

Uppfært klukkan 21:30: 

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með fyrstu menn í Kerlingarfjöllum en þaðan voru þeir fluttir með snjósleðum starfsmanna í Kerlingarfjöllum á vettvang. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi eru menn á vettvangi sem þekkja vel til á þessum slóðum og hafa leiðbeint um aðgerðir.

Fjöldi björgunarsveitarmanna er á vettvangi við íshellinn í Hofsjökli. Vitað er að styrkleiki brennisteinsvetnis er hár í hellinum enda voru þeir sem voru í samfylgd með manninum sem nú er leitað með mælitæki meðferðis.

Meðal fyrstu verkefna er að setja upp búnað til björgunaraðgerða en lagt er upp úr því að það gerist hratt og örugglega en að öryggi björgunarmanna sé tryggt.

Lögregla hefur upplýst aðstandendur mannsins sem leitað er að um stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert