„Björgunarsveitarmenn eru í þessum töluðum orðum að fara ofan í hellinn,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is spurður um leitina sem stendur yfir að karlmanni sem fór inn í íshelli í Blágnípujökli í Hofsjökli fyrr í kvöld en hefur ekki skilað sér til baka. Varað hefur verið við ferðum í hellinn vegna brennisteinsmengunar.
Um gríðarlega umfangsmikla aðgerð er að ræða að sögn Odds. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafa 150 björgunarsveitarmenn verið ræstir út, meðal annars af Suðurlandi, Norðurlandi og úr Reykjavík. Með sjúkraflutningamönnum, lögreglumönnum og ferðaþjónustufólki sé fjöldinn hins vegar hátt í 200.
Mjög erfiðar aðstæður eru til björgunarstarfa vegna veðurs og ekki hægt að notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar til að komast á staðinn af þeim sökum. Fyrir vikið hefur verið notast við snjóbíla og vélsleða. Oddur segir það ganga nokkuð vel. Unnið sé eins hratt og mögulegt er en á sama tíma reynt að tryggja öryggi björgunarsveitarmanna.
Lögreglan greindi frá því fyrr í kvöld að öll vinna í hellinum þyrfti að fara fram með aðfluttu lofti til björgunarsveitarmanna vegna hárra brennisteinsgilda. Tilkynning barst lögreglunni um klukkan 18:00 frá samferðafólki mannsins um að hann hefði farið inn í hellinn en ekki skilað sér til baka aftur. Ekki er vitað hvað olli því.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var samferðarfólk mannsins með mælitæki með í för sem sýndi brennisteinsgildi í hellinum.
Sett hefur verið upp aðgerðastjórnstöð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi. Þá hefur aðstandendum mannsins verið tilkynnt staða mála.