Meirihluti formanna en minnihluti félagsmanna

Fréttamannafundur eftir formannafund ASÍ. Ákveðið var að fella ekki kjarasamninga …
Fréttamannafundur eftir formannafund ASÍ. Ákveðið var að fella ekki kjarasamninga við SA. mbl.is/Hanna

Meirihluti formanna aðildarfélaga ASÍ vildi halda samningum ASÍ við SA, en þegar horft er til vægis atkvæðanna voru mun fleiri félagsmenn á bak við þá formenn sem vildu segja samningunum upp. 

Alls greiddu 49 atkvæði og eru þeir með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig. 21 sagðist vilja segja upp samningunum, eða 42,9%, en nei sögðu 28, eða 57,1%.

Þegar horft er til vægis atkvæðanna voru 52.890 félagsmenn á bak við það að segja samningunum upp (66,9%), en 26.172 félagsmenn (33,1%)  voru á bak við að segja ekki samningunum upp.

Leyni­leg ra­f­ræn at­kvæðagreiðsla var hald­in um hvort segja ætti upp samn­ing­un­um. 44 fé­lög eiga aðild að kjara­samn­ing­un­um, en inn­an sumra fé­laga eru til dæm­is versl­un­ar­manna- og iðnaðarmanna­deild­ir og for­ystu­menn þeirra höfðu einnig at­kvæðis­rétt, ásamt for­manni Rafiðnaðarsam­bands­ins og for­seta ASÍ. 58 ein­stak­ling­ar höfðu því at­kvæðis­rétt um niður­stöðuna.

Til að fella samningana hefði þurft meirihluta í bæði formannakosningunni og hlutfallskosningunni.

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að þeir sem hafi viljað halda í samninginn hafi talað um að aðeins væru 9 mánuðir eftir af samningnum og hann tryggði 3% almenna launahækkun 1. maí og rúmlega 7% hækkun lágmarkslauna. Nota ætti tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa næstu kjaraviðræður.

Hjá þeim sem hafi viljað segja upp samningnum hafi verið þungt hljóð og sterk krafa um að verkalýðshreyfingin setti fótinn niður í samfélagi misskiptingar. Voru stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir að taka til sín ávinning af starfi verkalýðshreyfingarinnar sem hafi lagt áherslu á hækkun lægstu launa, en stjórnvöld tekið til baka að stórum hluta með skerðingu bóta. Þá voru úrskurðir kjararáðs og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og Landsvirkjunar gagnrýndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert