Stefnir í gríðarlega harða kjarabaráttu

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er hér til hægri.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er hér til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú liggur fyrir að samningarnir renna út um næstu áramót og það er alveg morgunljóst í mínum huga að það mun stefna í gríðarlega harða kjarabaráttu í ljósi þess að þetta fór svona,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hann var einn þeirra formanna sem greiddi atkvæði með uppsögn kjarasamninga á fundi formanna aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í dag.

Niðurstaðan var hins vegar sú að meirihluti þeirra 49 sem greiddu atkvæði á fundinum greiddu atkvæði gegn því að segja samningunum upp. Munu þeir því halda til áramóta. Þeir formenn sem greiddu atkvæði gegn uppsögn hafa þó ekki meirihluta félagsmanna á bak við sig, sé horft til vægis atkvæða.

„Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður í raun og veru því vægi þeirra félagsmanna sem standa að baki þeim félögum sem vildu segja upp samningum voru 66 prósent. Meirihluti formanna vildi hins vegar ekki segja upp samningum. Vegna þessa fyrirkomulags þá er niðurstaðan sú að þessi 33 prósent ráða því að samningum er ekki sagt upp.“

Vilhjálmur segir niðurstöðuna því senda gríðarlega skýr skilaboð frá félagsmönnum, þrátt fyrir að kjarasamningar haldi.

„Ég held að þetta séu gríðarlega skýr skilaboð til atvinnurekenda og stjórnvalda að stéttarfélög sem hafa upp undir 70 prósent félagsmanna á bak við sig, vildu segja hér upp samningum vegna þess að þeim er gjörsamlega misboðið. Þetta er eitthvað sem stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að hafa vel á bak við eyrað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert