Formlegt vald til að segja upp kjarasamningunum er í höndum átta manna samninganefndar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem skipuð er forseta og formönnum landssambanda og stærstu aðildarfélaga. Samninganefndin kom saman í morgun og þar var tekin ákvörðun um að framselja umboð til ákvarðanatöku til formannafundar sem hófst klukkan 11. Það verður því formannafundarins að ákveða hvort kjarasamningum verður sagt upp eða ekki, og samninganefndin gerir þá ákvörðun að sinni.
Formannafundurinn fer fram á Hilton Nordica hótel og lok fundarins í dag mun fara fram leynileg, rafræn atkvæðagreiðsla þar sem 58 einstaklingar kjósa um niðurstöðuna. 44 félög eiga aðild að kjarasamningum, en innan sumra félaga eru verslunarmanna-, iðnaðarmannadeildir og fleira og forystumenn þar hafa einnig atkvæðisrétt, ásamt formanni Rafiðnaðarsambandsins og forseta ASÍ.
Um er að ræða tvöfalda atkvæðagreiðslu þar sem þarf bæði meirihluta atkvæða fundarmanna og meirihluta atkvæðavægis á bak við hvert og eitt félag. Þar hafa stærri félögin meira vægi ein þau minni, að sögn Snorra Más Skúlasonar, upplýsingafulltrúa ASÍ, en vægið er einfaldlega reiknað út frá fjölda félagsmanna í hverju félagi fyrir sig.
„VR hefur til að mynda mikið vægi og Efling sömuleiðis, en Verkalýðsfélag Þórshafnar hefur mjög lítið vægi þar. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að til dæmis VR og Efling gætu tvö ráðið niðurstöðunni og kemur líka í veg fyrir að 30 lítil félög geti ráðið niðurstöðunni. Þess vegna þarf meirihluta í hvoru tveggja. Allir eru hins vegar jafnir þegar verið er að telja hausana,“ segir Snorri og vísar þar til atkvæða fundarmanna.
Heimildir mbl.is herma að sé litið til atkvæðavægis sé hugsanlega meirihluti fyrir því að segja samningunum upp, en ekki sé endilega meirihluti formanna sömu skoðunar.
Fyrir fundinn höfðu formenn að minnsta kosti sjö aðildarfélaga gefið út að þeir myndu greiða atkvæði með uppsögn samninga, en ljóst er að mjög tvísýnt er um niðurstöðuna. Samkvæmt heimildum mbl.is var rafmagnað andrúmsloft á Hilton Nordica hótel við upphaf fundarins klukkan 11.
VR, Efling, Félag rafvirkja, Rafiðnaðarsambandið, Verkalýðsfélag Akraness, Stéttarfélagið Framsýn og Afl starfsgreinafélag höfðu fyrir fundinn lýst yfir vilja til að segja upp kjarasamningum.
Í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar og trúnaðarráðs VR í gærkvöldi kom fram að forsendur kjarasamninga væru brostnar og bæri að öllu óbreyttu að segja þeim upp. „Augljóst má vera að aðrir launahópar hafa fengið launahækkanir sem eru umfram þær hækkanir sem félagar í VR hafa fengið á viðmiðunartímabili gildandi kjarasamninga,“ segir í ályktuninni.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ítrekaði hins vegar fyrri orð sín í morgun að enginn forsendubrestur hefði orðið og því væri ekki við neinu að bregðast af þeirra hálfu. Hann sagði aðalatriðið vera að ef samningum yrði sagt upp þá kæmu ekki til framkvæmda umsamdar launahækkanir upp á 3 prósent í maí og hækkun lágmarkslauna úr 280 þúsund í 300 þúsund.
„Ég met það sem svo að það sé ekki meirihlutavilji í samfélaginu fyrir því að láta þessar launahækkanir falla niður og þeirri óvissu og því umróti sem uppsögn kjarasamninga veldur í samfélaginu,“ sagði Halldór.