Vopnaflutningar ekki arðbærari en aðrir

Vöruflutningaþota Air Atlanta af gerðinni Boeing 747-400.
Vöruflutningaþota Air Atlanta af gerðinni Boeing 747-400.

„Það að við séum að fljúga vís­vit­andi með her­gögn sem er verið að áfram­flytja til annarra landa er al­gjör­lega af og frá,“ seg­ir Bald­vin M. Her­manns­son, fram­kvæmda­stjóri sölu- og markaðssviðs Air Atlanca Ice­land.

Fram kom í um­fjöll­un frétta­skýr­ingaþátt­ar­ins Kveiks í gær­kvöldi að ís­lensk stjórn­völd hafi brotið sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna með því að veita leyfi fyr­ir flutn­ingi Air Atlanta Ice­land á her­gögn­un­um.

Einnig kom fram að fyr­ir­tækið hafi tekið þátt í vopna­flutn­ing­um frá ríkj­um í Aust­ur-Evr­ópu til Sádí-Ar­ab­íu sem und­ir­verktaki flug­fé­lags­ins Saudia. Þaðan hafi vopn­in verið flutt til Jem­ens og Sýr­lands þar sem átök hafa geisað sem hafa bitnað mjög á al­menn­um borg­ur­um.

Ekki flogið með her­gögn á þessu ári

Bald­vin seg­ir Air Atlanta Ice­land ekki hafa flogið með nein her­gögn það sem af er þessu ári. Á síðasta ári voru flug­ferðirn­ar inn­an við tíu tals­ins.

Hann seg­ir það ekk­ert leynd­ar­mál að fyr­ir­tækið hafi í gegn­um tíðina flogið með her­gögn rétt eins og fjöl­mörg önn­ur flug­fé­lög í heim­in­um og nefn­ir að um brota­brot af heild­ar­flutn­ing­um fyr­ir­tæk­is­ins sé að ræða. „Í þeim til­fell­um sem við höf­um verið að flytja her­gögn höf­um við ein­sett okk­ur að fara eft­ir ýtr­ustu lög­um og regl­um og í nánu sam­starfi við yf­ir­völd til að tryggja að allt verði eins og best verður á kosið.“

Flugvél Air Atlanta.
Flug­vél Air Atlanta.

Sótt um fjölda leyfa

Hann seg­ir vopna­flutn­ing­ana ganga þannig fyr­ir sig að fyr­ir­tækið fái all­ar upp­lýs­ing­ar um farm­inn sjálf­an, send­and­ann og mót­tak­and­ann í gegn­um svo­kallaða „end user statement“ sem er staðfest­ing á því hver end­an­leg­ur viðtak­andi farms­ins er. Þetta sé eitt af laga­skil­yrðunum til að fyr­ir­byggja áfram­sölu.

Í fram­hald­inu eru papp­ír­arn­ir send­ir til flug­mála­stjórn­ar sem áfram­send­ir þá til ráðuneyt­is­ins til um­sagn­ar. Þar er annað hvort veitt já­kvætt eða nei­kvætt svar. Allt er gert með vit­und og samþykk­is hins op­in­bera. Leyfi eru veitt hér heima, í land­inu sem flogið er frá og í land­inu þar sem lent er, auk þess sem sótt er um leyfi fyr­ir hvert land sem flogið er yfir.

Að sögn Bald­vins er allt uppi á borðum og öll­um lög­um og regl­um fylgt sem snúa að fyr­ir­tæk­inu, sama hvort um sé að ræða ís­lensk lög eða alþjóðasamn­inga.

„Það að við séum að gera eitt­hvað öðru­vísi en lög kveða á um, eða að við séum ekki að sinna okk­ar eft­ir­lits­skyldu þá vís­um við því al­gjör­lega til föður­hús­anna,“ seg­ir hann en nefn­ir að ef brota­lam­ir koma í ljós varðandi flutn­ing­ana sé sjálfsagt mál að skoða það í sam­ráði við ís­lenska sér­fræðinga og yf­ir­völd.

Baldvin M. Hermannsson.
Bald­vin M. Her­manns­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Þrýsta ekki á stjórn­völd

Fram kom í kvöld­frétt­um RÚV að Air Atlanta Ice­land hafi í gær ekki fengið heim­ild ís­lenskra stjórn­valda til vopna­flutn­inga til Sádi Ar­ab­íu. Bald­vin seg­ir það vera sjálfsagt mál ef eft­ir­litsaðilar vilji skoða um­sókn­ar­ferlið frek­ar.

Spurður hvort fyr­ir­tækið muni þrýsta á stjórn­völd um að fá að halda vopna­flutn­ing­un­um áfram og jafn­vel leita rétt­ar síns í þeim efn­um, seg­ir Bald­vin það ekki vera ætl­un­ina ef stjórn­völd telja flutn­ing­ana á gráu svæði.

„Ef brota­lam­ir eru á þess­um flutn­ing­um og þeir fara áfram, þrátt fyr­ir það sem kem­ur fram í samn­ing­um þá erum við sem flug­fé­lag ekki í neinni stöðu til að fylgj­ast með því. Við erum að flytja fleiri þúsund­ir tonna í hverj­um ein­asta mánuði,“ seg­ir hann og treyst­ir á því að hið op­in­bera verði þeim áfram inn­an hand­ar.

„Ef þetta er eitt­hvað sem þarf að skoða bet­ur þá er það hið allra besta mál hvað okk­ur varðar. Við eig­um ekki farm­inn og við fáum jafn­mikið greitt hvort sem við flytj­um þetta eða eitt­hvað annað. Það eina sem við get­um gert er að passa upp á að þegar við fáum farm­beiðni að öll leyfi séu til staðar og allt sé eins vel gert og hægt er,“ út­skýr­ir Bald­vin og bæt­ir við að hags­mun­irn­ir séu ekki stór­ir hjá fyr­ir­tæk­inu þegar kem­ur að vopna­flutn­ing­um.

Sama greitt og fyr­ir bíla­vara­hluti 

Aðspurður seg­ir hann Air Atlanta Ice­land fá al­veg það sama greitt fyr­ir flutn­ing her­gagna og til dæm­is flutn­ing bíla­vara­hluta. Samn­ing­ur­inn gildi um þrjár flug­vél­ar til langs tíma þar sem borgað er fyr­ir hvern flug­tíma óháð því hvað verið er að flytja. „Þetta eru eng­an veg­inn flutn­ing­ar sem eru arðbær­ari held­ur en aðrir. Það eru eng­ir hags­mun­ir hjá okk­ur að þrýsta þessu í gegn, enda erum við ekki að reyna það.“

Bald­vin legg­ur áherslu á að mann­rétt­inda­brot snerti jafn­mikið við fyr­ir­tæk­inu og öðrum og því sé það al­gjör­lega af og frá að vís­vit­andi sé flogið með her­gögn sem verið er að flytja áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert