Vopnaflutningarnir sagðir hneyksli

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmargir þingmenn stigu í ræðustól Alþingis í dag í umræðum um störf þingsins og gagnrýndu harðlega að íslensk stjórnvöld hafi á undanförnum árum heimilað flugfélaginu Air Atlanta að flytja hergögn frá ríkjum í Austur-Evrópu til Sádi Arabíu.

Fram kom í fréttaskýringarþættinum Kveik í Ríkisútvarpinu í gær að vopnin sem flutt hafi verið til Sádi Arabíu hefðu líklega verið flutt áfram til Sýrlands og Jemen þar sem átök hafa geisað undanfarin ár og kostað hefur mikinn fjölda óbreyttra borgara lífið. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði málið grafalvarlegt.

Sagði hún með ólíkindum að hafa rætt á Alþingi í gær um skömm þeirra ríkja sem bæru ábyrgð á hörmungunum í Sýrlandi og Jemen og horfa síðan á Kveik um kvöldið. Heimild íslenskra stjórnvalda til Air Atlanta færi gegn utanríkisstefnu Íslands og alþjóðlegum skuldbindingum landsins.

Rósa rifjaði upp þau ummæli fráfarandi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna að Jemen og Sýrland væru sláturhús heimsins. Tók það mjög á hana að rifja þessi ummæli upp og varð hún að gera stutt hlé á ræðu sinni vegna þess. Sagði hún að velta yrði við hverjum steini og að gefa skýr skilaboð um að Ísland leyfði engar undanþágur fyrir vopnaflutninga frá alþjóðlegum skuldbindingum sem landið hefði undirgengist.

„Þetta er stórkostlegt hneyksli. Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hunsaðar, samningar brotnir. Það þýðir ekkert að drekka kokteila í New York, skrifa undir samninga og henda þeim svo í ruslið. Hvað er þetta fólk eiginlega að gera sem á að sjá til þess að við uppfyllum skuldbindingar okkar?“ sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.

Kallaði hann eftir því að þeir sem hefðu heimilað þennan vopnaflutning undir íslenskum fána, embættismenn og stjórnmálamenn, væru látnir sæta ábyrgð. „Orðstír Íslands hefur beðið hnekki.“ Fleiri þingmenn tóku til máls og var stjórnvöldum einnig hrósað fyrir að taka strax á málinu og veita ekki endurnýjaða heimild fyrir vopnaflutningunum.

Formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ekki kæmi annað til greina en að málið yrði tekið föstum tökum. Ekki væri í boði að sætta sig við að slíkir flutningar ættu sér stað með samþykki íslenskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert