Búa sig undir átök á vinnumarkaði

Forystumenn kynna niðurstöðu formannafundar ASÍ, Sigurður Bessason, Eflingu, Gylfi Arnbjörnsson, …
Forystumenn kynna niðurstöðu formannafundar ASÍ, Sigurður Bessason, Eflingu, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Ragnar Þór Ingólfsson, VR, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, Rafiðnaðarsambandinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu gilda til loka samningstímans. Forystumenn Alþýðusambands Íslands og aðildarfélaga þess búa sig undir hörð átök næsta vetur. Forseti ASÍ segir að vel geti komið til verkfalla.

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands taldi að forsendur gildandi kjarasamninga væru brostnar og unnt væri að segja þeim upp. Tími til þess rann út síðdegis í gær. Hins vegar var tillaga þess efnis felld á fundi formanna ASÍ í gær.

Það voru frekar formenn félaga á landsbyggðinni sem voru á móti uppsögn, meðal annars mikill meirihluti félaga í Starfsgreinasambandinu. Björn Snæbjörnsson, formaður sambandsins, segir að þar sem fólk er mikið á lágmarkstöxtum hafi verið vilji til að fá fram hækkun lágmarkslauna í 300 þúsund krónur í maí.

Félagsmenn undirbúnir

Formenn verkalýðsfélaga sem vildu segja upp samningum eru óánægðir með niðurstöðuna. „Ég held að þessi niðurstaða hafi veikt hreyfinguna gríðarlega,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, á von á átökum á vinnumarkaði næsta vetur. „Ég tel að það sé mjög mikilvægt að forystumennirnir byrji nú þegar að undirbúa okkar félagsmenn. Ég held að næstu samningalotu ljúki ekki án þess að félagsmenn komi að málum og því sé hyggilegt að búa sig undir það,“ segir Gylfi. Spurður um líkur á boðun verkfalla segir hann að það gæti vel gerst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert