Gámarnir sem lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakaði í dag tengjast ekki innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð í desember og janúar. Tveir Rússar voru handteknir vegna málsins en sleppt að lokinni skýrslutöku.
Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is að Rússarnir séu ekki grunaðir um neitt saknæmt og hafa þeir öll tilskilin leyfi til reksturs gámaversins í Vestmannaeyjum.
Spurður hvers vegna grunur hefði beinst að gámum Rússanna í Vestmannaeyjum vegna rannsóknar á innbrotunum í kringum áramót kveðst Jón Halldór ekki vilja upplýsa um það í fjölmiðlum þar sem rannsóknin sé á viðkvæmu stigi.