Gjaldtaka á þeim rútum sem stöðva við Leifsstöð er enn ekki hafin. Þetta segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia. „Það er eitthvað sem á að gerast í dag,“ segir Guðjón. „Það er enn ekki komin nákvæm tímasetning, því þetta er allt spurning um tækjabúnaðinn.“
Áður hefur verið greint frá því að Isavia hefji í dag að innheimta gjald af rútunum, þrátt fyrir beiðni Samtaka ferðaþjónustunnar um að beðið verði með gjaldtökuna þangað til Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað í málinu.
Guðjón segir gjaldtökuna virka þannig að fyrirtækin séu búin að skrá þær rútur sem fara inn á svæði fyrirfram hjá Isavia. Síðan fer þetta allt í viðskiptareikning og svo er reikningur sendur í lok hvers mánaðar.“
Hann segir þær rútur sem þegar hafa stöðvað við Leifsstöð í dag því ekki verða rukkaðar. Gjaldtakan muni hefjast á einhverjum ákveðnum tímapunkti og muni miðast við þær rútur sem komi eftir þann tíma.
Isavia greindi frá því í vikubyrjun að bætt hafi verið við millistærðarflokki sem tekur til hópferðabifreiða sem taka 20-45 farþega. Innheimtar verði 7.900 kr. fyrir minni bíla og 19.900 kr. fyrir stærri bíla. Þá verði gjaldið lægra fyrstu sex mánuðina til að veita ferðaþjónustuaðilum möguleika að aðlaga sig að breyttu fyrirkomulagi.