Gjaldtaka á stæði fyrir hópferðabifreiðar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefst í dag. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) funduðu um gjaldtökuna í gær og skoruðu á Isavia að fresta gildistöku hennar að lágmarki á meðan Samkeppniseftirlitið hefði gjaldtökuna til skoðunar. Samtök ferðaþjónustunnar telja þar að auki gjaldið allt of hátt miðað við sambærilega gjaldtöku annarra flugstöðva í Evrópu og fyrirvarann of stuttan, en tilkynnt var um gjaldtökuna í lok síðasta árs. Þá hafa SAF einnig gagnrýnt samráðsleysi við ákvörðun gjaldsins.
Gjald verður rukkað fyrir stæði hópferðabifreiða sem aka farþegum frá Keflavíkurflugvelli. Gjaldið fyrir bifreiðar sem taka allt að 19 farþega verður 3.200 kr. fyrir hvert skipti, 8.900 kr. skiptið fyrir 20-45 farþega rútur og 12.900 kr. fyrir rútur stærri en 46 farþega. Verðskráin mun hækka 1. september næstkomandi.