Munur á að taka forhúðina eða aðra tána?

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Skiptir máli hversu hefðin er löng og er í lagi að ganga í skrokk á börnum í nafni trúarinnar? Skiptir jafnvel máli hvort blóðbaðið sé mikið eða lítið og skiptir máli hvort taka eigi af forhúðina eða aðra tána. Þetta var meðal þess sem Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, velti fyrir sér í ræðustól á Alþingi í dag, en fyrsta umræða um frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, varðandi umskurð drengja, fór þar fram.

Þegar umræða um frumvarpið hófst var Silja Dögg ekki í þingsalnum og var umræðum frestað í stutta stund meðan beðið var eftir henni. Eftir að hún kom í þingsalinn fór Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, yfir málið, en hann sagðist andsnúinn því að gera umskurð drengja saknæman.

Gagnrýndi hann frumvarp Silju og sagði að í greinargerðinni væri mikið rætt um umskurð kvenna sem ætti ekkert sameiginlegt með umskurð drengja. Þá taldi hann Silju fara frjálslega með vísun í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að notkun á orðinu „limlesting“ í greinargerð málsins væri vottur um óvönduð vinnubrögð. Nefndi hann því til stuðnings að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Alþjóðabankinn, stofnun Bill og Melindu Gates og samtök barnalækna í Bandaríkjunum teldu öll að kostir væru umfram ókosti  umskurðar. Þannig hefði verið mælt með því í Afríkuríkjum til að minnka líkur á alnæmissmiti.

Sagði Birgir einnig að frumvarpið væri vanhugsað þar sem ekki væri horft til mögulegra alþjóðlegra áhrifa og sagði hann gyðinga t.d. vera mjög áhrifamikla í viðskiptalífi heimsins. Spurði hann Silju hvort hún teldi þetta skaða ímynd landsins út á við og hvort hún teldi lög sem þessi geta hafa áhrif á komu flóttamanna frá múslimalöndum til landsins í framtíðinni.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.

Silja kom þá í ræðustól og gagnrýndi Birgi fyrir að hann hugsi frekar um viðskiptahagsmuni og jafnvel komu ferðamanna til landsins heldur en mannréttindi barna. Sagði hún frumvarpið frekar hafa fengið jákvæða alþjóðlega athygli en neikvæða og að grundvöllur málsins væri að koma í veg fyrir að lítil börn verði fyrir aðgerð sem þau geti ekki varið sig gegn.

Birgir mætti aftur í ræðustól til andsvars og sagði Silju gera sér upp skoðun og sagðist ekki taka viðskiptahagsmuni fram yfir hagsmuni barna. Það þyrfti engu að síður að horfa til þess atriðis við ákvarðanatöku sem þessa og að hann teldi ekki rétta leið að gera umskurð saknæman hér á landi. Sagðist hann hafa kynnt sér málið vel og að hann teldi það slæm áhrif fyrir land og þjóð ef frumvarpið yrði samþykkt.

Brynjar var næstur í pontu og tók strax fram að hann væri almennt mikill íhaldsmaður, en að hefðarrökin í þessu máli trufluðu hann þegar rætt væri um að trúarhefðir. Spurði hann hvort það þætti í lagi ef hann stofnaði söfnuð og færi að ganga í skrokk á börnum í nafni trúarinnar. „Væri það í lagi?“ spurði hann og bætti við hvort það skipti máli hversu mikið eða lítið blóðbaðið væri, hvort munur væri á hversu mikið væri tekið. „Er munur á að taka forhúðina eða aðra tána?“ Að lokum spurði hann Birgi hvort hann teldi að umskurður yrði leyfður í dag ef hann væri kynntur til sögunnar.

Birgir sagði mikinn mun á vikugömlum söfnuði eða trúarbrögðum með hefð í mörg þúsund ár og að í augum margra væru þetta fordómar gegn viðkomandi trúarbrögðum. Brynjar spurði þá hvort það hefðu ekki verið fordómar gegn múslimum þegar Íslendingar settu lög um jafna stöðu karla og kvenna. Spurði hann hvort Íslendingar ættu að láta mótast af þúsund ára gömlum trúarbrögðum annarsstaðar í heiminum. Sagðist hann aftur á móti velta fyrir sér nauðsyn frumvarpsins á þessum stigum málsins og lagði til að beðið yrði með það. Tók Birgir undir það með Brynjari að best væri að geyma það og leyfa umræðunni að þróast og þroskast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka