Nói boðinn velkominn í fyrstu strætóferðina

Nói fylgist athugull með umhverfi sínu í fyrstu strætóferðinni.
Nói fylgist athugull með umhverfi sínu í fyrstu strætóferðinni. Ljósmynd/Heiðrún Finnsdóttir

Silki terrier-hundurinn Nói var eflaust í hópi fyrstu ferfætlinganna sem nýttu sér í morgun tækifærið að taka sér ferð með strætó. Eigandi Nóa, Heiðrún Finnsdóttir, deilir reynslunni af upplifun þeirra Nóa af strætóferðinni á Facebook. Segir hún ferðalagið hafa gengið vonum framar og að Nói hafi verið hundaeigendum til fyrirmyndar.

Þau Heiðrún og Nói tóku sér rúnt um Kópavoginn með strætó klukkan níu í morgun, en frá og með deginum í dag eru gælu­dýr leyfð í stræt­is­vögn­um á höfuðborg­ar­svæðinu.

Um er að ræða til­rauna­verk­efni til eins árs en um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið veitti Strætó bs. und­anþágu frá reglu­gerð um holl­ustu­hætti. 

Nói bíður hér stilltur og prúður eftir vagninum. Fyrsti vagnstjórinn …
Nói bíður hér stilltur og prúður eftir vagninum. Fyrsti vagnstjórinn bauð hann velkominn, en sá næsti var ekki alveg jafn sáttur. Ljósmynd/Heiðrún Finnsdóttir

Heiðrún segir fyrsta vagnstjórann hafa tekið þeim vel og boðið þau velkomin í vagninn. Sá næsti var ekki alveg jafn sáttur og las þeim pistilinn um reglurnar. „Vildi helst að hundurinn biði fyrir utan meðan ég borgaði og kæmi svo inn að aftan,“ segir Heiðrún í svörum við færslu sinni á Facebook-síðunni Hundasamfélaginu, þar sem fjölmargir vildu vita hvernig ferð þeirra hefði gengið. „Við brostum bara og héldum ró okkar, fengum að greiða fargjaldið og fórum svo aftast.“

Engin farþeganna virtist heldur kippa sér upp við þennan ferfætta ferðafélaga. „Við fengum alveg að vera í friði (sem er mjög gott enda var þetta umhverfisþjálfun og gott að fá að einbeita sér 100% á að halda hundinum rólegum)“ segir Heiðrún.

Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, segir í samtali við mbl.is að, ekki vita annað en að verkefnið hafi farið vel af stað. „Af minni bestu vitund hefur þetta gengið vel,“ segir Guðmundur og kveðst hafa séð færslur á Facebook þar sem fólk sé að lýsa reynslu sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert