Tveir karlmenn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í fyrradag, grunaða um innbrot í heimahús í Hafnarfirði, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 7. mars. Hafa þar með fjórir einstaklingar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna innbrotsmála síðustu tvo daga, en áður höfðu tveir menn verið úrskurðaðir í viku varðhald vegna innbrots í Garðabæ.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, segir í samtali við mbl.is að rannsókn sé nú í fullum gangi í báðum málunum. Hann segir að sem stendur sé ekki talin tenging milli málanna, en það sé þó í skoðun.
Í málinu í Hafnarfirði er um að ræða einn Íslending og einn erlendan ríkisborgara sem búið hefur hér um nokkurt skeið að sögn Skúla. Í Garðabæjarmálinu er hins vegar um að ræða tvo erlenda ríkisborgara sem ekki eru með íslenska kennitölu og má leiða líkur að að hafi komið hingað til lands til að stunda innbrot. Áætlað þýfi fannst við húsleitir í báðum málunum.
Skúli segir að með handtökunum síðustu daga líti út fyrir að ekki sé bara um einn hóp að ræða þegar komi að skipulögðum innbrotum í heimahús undanfarið. „Það virðast vera nokkrir hópar sem eru að herja á okkur,“ segir hann.
Mennirnir í báðum málunum hafa verið yfirheyrðir, en í Garðabæjarmálinu fór yfirheyrsla aftur fram í gær.