Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar telur að séra Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju, hafi gerst sekur um siðferðisbrot gegn tveimur konum. Biskupi er falið að ákveða refsingu séra Ólafs.
Fimm konur kærðu athafnir séra Ólafs í sinn garð til kirkjunnar til úrlausnar. Í úrskurðinum eru athafnir hans taldar sannaðar en Ólafur aðeins fundinn sekur um siðferðisbrot í tveimur málanna og refsingar krafist af biskupi í einu þeirra.
Í minnisblöðum biskups segir að biskup hafi talað við aðra konu sem hafi átt sams konar reynslu og konurnar fimm en sú ætli sér ekki að kæra til fagráðs, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.