Stormsker skellti sér í strætó

Stormsker er fyrsti íslenski hesturinn sem ferðast með strætó.
Stormsker er fyrsti íslenski hesturinn sem ferðast með strætó. Ljósmynd/Horses of Iceland

Hesturinn Stormsker er hæstánægður með tilraunverkefni Strætós um að leyfa gæludýr í strætó. Frá og með deginum í dag eru gælu­dýr leyfð í stræt­is­vögn­um á höfuðborg­ar­svæðinu.

Frétt mbl.is: Nói boðinn velkominn í fyrstu strætóferðina

Áður en lesendur, eða að minnsta kosti hluti þeirra, taka andköf er rétt að taka fram að Stormsker fékk sérstaka undanþágu til að fara um borð í strætóinn. Hestar heyra ekki undir þær reglur og viðmið sem sett hafa verið í tengslum við tilraunaverkefnið, en aðeins er leyfilegt að ferðast með hunda og ketti sem eru skráðir í sam­ræmi við samþykkt­ir um hunda-og katta­hald í hlutaðeig­andi sveit­ar­fé­lög­um á höfuðborg­ar­svæðinu og nag­dýr, fugl­ar, kan­ín­ur, frosk­ar, skraut­fisk­ar, skriðdýr og skor­dýr.

Uppátækið er hluti af árshátíðargríni Strætós og var hestakonan Jónína Sif Eyþórsdóttir, fengin til að aðstoða Stormsker við verkið.

„Ég fór bara með hann í strætó og honum fannst þetta dásamlegt og er mjög spenntur að fá að ferðast meira með strætó, þetta gekk ótrúlega vel,“ segir Jónína í samtali við mbl.is. Hún efast hins vegar um að Stormsker muni fá tækifæri í framtíðinni til að nýta sér strætó sem samgöngumáta. „Ég efast um að Íslendingar verði tilbúnir til þess, en það myndi koma sér vel. Er ekki alltaf nóg pláss aftast í vagninum?“

Jónína veit ekki betur en að Stormsker hafi vakið mikla lukku meðal árshátíðargesta hjá Strætó. „Þetta gekk allavega mjög vel. Hann var til fyrirmyndar, hann er prúður hestur og passaði sig á því að óhreinka ekki vagninn.“

Uppátækið hefur að minnsta kosti slegið í gegn á Facebook-síðu Horses of Iceland: 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert