Lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakar tvo gáma sem hefur verið komið fyrir á Eiðinu í Vestmannaeyjum. Hugsanlegt er að gámarnir tengist þremur innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð í desember og janúar þar sem samtals 600 tölvum var stolið. Verðmæti þýfisins eru talin nema rúmum 200 milljónum króna. Öflugir rafmagnskaplar liggja að gámunum.
Á vef Eyjafrétta kemur fram að lögreglan hafi handtekið tvo menn í nótt sem eru grunaðir um aðild að innbrotunum. Mennirnir eru af erlendum uppruna og bað annar þeirra um leyfi fyrir því að koma gámunum fyrir í Vestmannaeyjum. Samkvæmt heimildum Eyjafrétta er búið er að koma upp öflugu gagnaveri í gámunum í þeim tilgangi að grafa eftir bitcoin.
Lögreglan í Vestmannaeyjum vildi ekki staðfesta í samtali við mbl.is að mennirnir hefðu verið handteknir en gámarnir eru til rannsóknar hjá lögreglunni.
Tveir íslenskir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á innbrotunum. Gæsluvarðhald yfir mönnunum var framlengt síðastliðinn föstudag og rennur út á morgun, 2. mars.
Frétt mbl.is: Stálu 600 tölvum - tveir í haldi
Rannsókn málsins er mjög umfangsmikil og talið er að málið tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Alls hafa níu manns verið handteknir. Fjórir voru upphaflega úrskurðaðir í gæsluvarðhald og tveir eru enn í gæsluvarðhaldi, líkt og áður sagði.
Lögreglan hefur óskað eftir aðstoð almennings og hvetur alla sem hafa orðið varir við eitthvað grunsamlegt að gera lögreglu viðvart. Sérstaklega er leitað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum sem sjá um nethýsingu, rafverktökum og leigusölum húsnæðis eða gáma.
Frétt mbl.is: Leita til almennings vegna innbrots