Ekki Samgöngustofu að skoða ástandið

Samgöngustofa segir Air Atlanta hafa starfað í Saudi-Arabíu í áratugi …
Samgöngustofa segir Air Atlanta hafa starfað í Saudi-Arabíu í áratugi og sinnt flutningum á fólki og farmi, án þess að athugasemdir hafi verið gerðar eða leiðbeiningar umfram reglugerð borist.

Engin tilmæli hafa borist Samgöngustofu um sérstaka skoðun á þróun eða ástandi í tilteknum heimshlutum, í tengslum við leyfisveitingar til vopnaflutnings að því er fram kemur í yfirlýsingu sem stofnunin sendi frá sér nú í morgun. Það sé enda ekki hlutverk stofnunar um samgönguöryggi að leggja slíkt pólitískt mat.

Segir stofnunin Air Atlanta hafa starfað í Saudi-Arabíu í áratugi og sinnt flutningum á fólki og farmi, án þess að athugasemdir hafi verið gerðar eða leiðbeiningar umfram reglugerð borist.

„Samgöngustofu berast reglulega upplýsingar sem varða flugöryggi frá Flugöryggisstofnun Evrópu um átakasvæði (Conflict Zones) en Saudi-Arabía hefur ekki verið á þeim lista. Saudi-Arabía hefur ekki verið flokkuð sem viðkvæmt átakasvæði svo Samgöngustofu sé kunnugt um né er á lista um ríki þar sem þvingunarráðstöfunum Sameinuðu þjóðanna er beitt,“ segir í yfirlýsingunni.

Um flutning á hergögnum með loftförum gildi lög og reglur um loftferðir, en á grundvelli alþjóðareglna sé óheimilt að flytja hergögn um loftrými ríkis án heimildar viðkomandi ríkis. „Þannig þarf samþykki frá ríkjum sem hergögn eru send frá og til auk þess sem öll ríki sem flogið er yfir þurfa að veita heimild.“

Samgöngustofa veiti leyfi til flutnings hergagna með borgaralegum loftförum og forsendur þeirra leyfisveitinga sé að stuðla að flugöryggi með eftirliti samkvæmt alþjóðlegum kröfum. Þessu tengdu komi til skoðunar ýmsir þættir, einkum flugrekstrarleyfi og flugrekendaskírteini, t.d. varðandi leyfi til flugreksturs á tilteknum svæðum, kröfur um sérstakan búnað, verklagsreglur fyrir flutning á hættulegum varningi o.fl.

Þá kemur fram í yfirlýsingunni að vinna við endurskoðun reglugerðar um loftferðar flutninga hafi hafist í árslok 2017 og standi nú yfir undir stjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. En sé horft til annarra Norðurlanda sjáist að t.d. stjórnvöld í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hafa undanfarið litið til endurskoðunar á sínum reglum um útflutning á hernaðargögnum til ríkja eins Saudi Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Jemen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert