Samgöngu- og utanríkisráðuneytunum hefur ekki formlega verið gerð grein fyrir umsóknum flugrekenda um hergagnaflutninga undanfarin ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgöngustofu.
Annað mátti skilja á orðum Þórólfs Árnasonar, forstjóra Samgöngustofu, í viðtali sem hann veitti að loknum fundi utanríkisnefndar og samgöngu- og umhverfisnefnd þar sem hann var gestur ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Á fundinum voru vopnaflutningar Air Atlanta flugfélagsins ræddir. Þórólfur sagðist telja víst að ráðuneytunum hefði verið kunnugt um flutninga flugfélagsins Air Atlanta með hergögn.
Í tilkynningu frá Þórhildi Elínu Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu, sem send var til fjölmiðla nú síðdegis segir að Þórólfur hafi of sterkt „að orði kveðið því hin síðustu ár hefur ráðuneytunum ekki verið gerð sérstök grein fyrir umsóknum einstakra flugrekenda með formlegum hætti.“