Óska eftir lífsleiðum hænum

Þessir tignarlegu hanar eru ekki sérlega lífsleiðir ásýndar. Mynd úr …
Þessir tignarlegu hanar eru ekki sérlega lífsleiðir ásýndar. Mynd úr safni. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Karl Skírnisson, sérfræðingur í sníkjudýrum, auglýsir á Facebook-síðu sinni eftir lífsleiðum hænum til rannsóknar. Tilgangurinn er að rannsaka hvaða sníkjudýr hrjá íslensk hænsn um þessar mundir.

„Ágætu hænsnaeigendur,“ segir Karl í færslu sinni. „Við Guðný Rut Pálsdóttir á Tilraunastöðinni á Keldum erum nú að fara af stað með rannsókn á sníkjudýrum hænsna og hyggjumst við skoða bæði óværu jafnt sem orma sem hrjá hérlend hænsni um þessar mundir.“

Til að fá sem bestan þverskurð af stöðu mála óska þau eftir að fá til skoðunar eingöngu „gamlar, lífsþreyttar heimilis- og bakgarðshænur.“ Rannsóknarhænurnar þurfa þó að vera tilbúnar að kveðja jarðlífið því setja þarf hverja og eina hænu í sér poka og merkja með dagsetningu og upprunastað. „Best er að frysta hænurnar strax og lífsgöngu þeirra er lokið - hafi menn frystipláss. Og hafa í framhaldinu samband við okkur á Keldum,“ segir í færslunni.

Karl segir í samtali við mbl.is rannsóknina m.a. beinast að rauðu hænsnamítlunum. „Þeir eru sennilega landlægir og það er eitt af því sem að við ætlum að skoða. Við höfum óstaðfestar grunsemdir um hvað hér hefur verið,“ bætir hann við og segir þau á Keldum s.s. búin að vera með puttann á púlsinum í áratugi. 

„Það er orðið svo útbreitt að fólk sé með hænsni, sem menn eru svo að flytja á milli.“  

Eru þeir sem vilja sjá af hænum sínum beðnir um að senda póst á netfangið karlsk@hi.is, eða hringja í síma 848 1199.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka