Rannsaka ferðir og síma

Fjórir sitja í gæsluvarðhaldi vegna innbrota.
Fjórir sitja í gæsluvarðhaldi vegna innbrota. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórir menn sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um innbrot. Tveir þeirra voru handteknir fyrir innbrot í heimahús í Hafnarfirði á þriðjudag en áður höfðu tveir menn verið handteknir fyrir innbrot í Garðabæ. Allir voru þeir úrskurðaðir í vikulangt varðhald. Mennirnir sem teknir voru í Garðabæ eru erlendir ríkisborgarar sem eru ekki með íslenska kennitölu og talið er að þeir hafi komið hingað gagngert til að stunda innbrot. Annar þeirra sem tekinn var í Hafnarfirði er Íslendingur en hinn erlendur ríkisborgari sem búið hefur hér um nokkurt skeið. Lagt var hald á þýfi hjá báðum þessum hópum.

„Við erum komnir með mikið af gögnum, verksummerki og annað í þeim dúr. Nú fer fram mikil greiningarvinna við að skoða aðferðir og fleira slíkt. Við sjáum að yfir þetta tímabil hefur misjöfnum aðferðum verið beitt og verksummerkin eru misjöfn. Það hefur sagt okkur að það séu fleiri en einn hópur brotamanna og það fékkst staðfest með þessum handtökum í vikunni,“ segir Skúli.

Líklegt er að talið að fleiri hópar séu enn á sveimi því í fyrrakvöld var gerð tilraun til innbrots í Garðabæ. Þar var spennt upp rúða en styggð virðist hafa komið að þjófunum þegar þjófavarnarkerfi fór í gang. Engu var stolið.

Meðal þess sem lögregla rannsakar eru ferðir mannanna til og frá landinu til að sjá hvaða innbrotum þeir geta tengst. Alls eru um sextíu innbrot óupplýst frá því í desember. Þá skoðar lögregla líka farsímanotkun mannanna til að sjá hverjir hafa rætt saman og hvenær.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að grunur leiki á að innbrotin tengist skipulagðri glæpastarfsemi. „Maður sér það á gögnum sem tekin voru af þessum mönnum. Menn fara og skoða húsin með einhverjum hætti og láta svo til skarar skríða,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert