Öll skólabörnin tóku þátt í skákmóti Hróksins

Ljósmynd/Aðsend

Öll börnin í grunnskólanum í Kulusuk tóku þátt í BROS-móti Hróksins á föstudag. BROS-mótið var liður í Polar Pelagic-hátíð Hróksins, sem nú er haldin fjórða árið í röð.

Nú eru 35 börn í grunnskólanum, frá 1. og upp í 10. bekk. Fjögur þeirra deildu efsta sætinu og hlutu öll gullverðlaun og annan glaðning. Þetta eru þau Kenno Kalia, Julia Maratse, Qivi Sianiali og David Sianiali. Öll hafa þau á síðustu árum komið til Íslands á vegum Kalak og annarra velunnara til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.

Samhliða skákhátíðinni í Kulusuk síðustu daga hafa öll börnin sótt listsmiðju Ingu Maríu Brynjarsdóttur, þar sem mörg listaverk hafa orðið til. Sýning á listaverkum krakkanna frá Kulusuk verður haldin á næstunni í Reykjavík.

Íbúar í Kulusuk, næsta nágrannabæ Íslendinga, eru nú um 250 og hefur Hrókurinn um árabil átt frábæra samvinnu við Justine Boassen skólastjóra, hennar kennaralið og aðra starfsmenn grunnskólans.

Leiðangursmenn ætluðu yfir til Tasiilaq, höfuðstaðar Austur-Grænlands, á laugardag en þoka hindrar nú allt flug til og frá Kulusuk. Þangað var ekki flogið í tvær vikur í febrúar og bærinn var án fjarskipta og netsambands í þrjá daga, og samtímis var stóreflis ísbjörn á vappi.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert