Tveir göngumenn lentu í sjálfheldu á Heiðarhorni, hæsta tindi Skarðsheiðar, á fimmta tímanum í dag og óskuðu þeir eftir aðstoð. Björgunarsveitir á Vesturlandi fóru á staðinn og náðu til mannanna fyrir skömmu og eru að koma þeim niður.
„Aðgerðir hafa gengið vel, það er heldur að bæta í vind og þykkna upp en þetta lítur vel út,“ segir Þór Þorsteinsson, vettvangsstjóri björgunaraðgerðarinnar, í samtali við mbl.is.
Björgunaraðgerðin er talsvert umfangsmikil en á þriðja tug björgunarsveitarmanna sótti að mönnunum úr fjórum áttum með snjóbílum, sexhjólum, fjórhjólum, jeppum og göngumönnum. „Þeir voru vanbúnir til að takast á við aðstæðurnar,“ segir Þór, en mjög bratt er á svæðinu og mikill klaki eftir veðurfar síðustu daga.
Mennirnir eru engu að síður vel á sig komnir og býst Þór ekki við að þeir þurfi á læknisaðstoð að halda þegar niður verður komið.