Erlendur ferðamaður á leiðinni á Keflavíkurflugvöll var stöðvaður af lögreglu fyrir of hraðan akstur. Hann var tekinn á 175 kílómetra hraða á klukkustund.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum var erlendi ferðamaðurinn á leið í flug. Hann fékk sekt upp á 140 þúsund krónur en staðgreiddi og fékk því 20 þúsund króna afslátt. Ferðamaðurinn ók BMW-bílaleigubíl.
Það sem af er degi hefur lögreglan á Suðurnesjum þurft að hafa afskipti af tíu ökumönnum, þar af átta fyrir hraðakstur og tveimur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.