Vísindin eiga mig alla

Pétur Marteinsson, Lilja Hugrún og Unnur Anna Valdimarsdóttir.
Pétur Marteinsson, Lilja Hugrún og Unnur Anna Valdimarsdóttir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Einn fremsti vísindamaður okkar Íslendinga, Unnur Anna Valdimarsdóttir, setur markið ekki lágt og ætlar sér að ná til um 110 þúsund íslenskra kvenna. Hún hefur frá blautu barnsbeini verið afar orkumikil, svo virk raunar sem barn að foreldrar hennar treystu sér ekki með hana í frí. Á sumrin ræktar hún sveitavarginn í sér og bakar kleinur en er þess á milli frummyndin af Vesturbæingi.

Unnur A. Valdimarsdóttir er vísindamaður sem Íslendingar eru farnir að kannast við. Hún er orðin einn „frægra“ vísindamanna hér heima en ólíkt því sem gerist í Svíþjóð til dæmis, þar sem Svíar þekkja sína stærri fræðimenn, eru Íslendingar duglegri að þekkja leikara og tónlistarmenn, nema þeir heiti kannski Kári Stefánsson og Ragnar skjálfti.

Frægt er orðið þegar Unnur hlaut 240 milljóna króna styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu, þann stærsta sem ráðið veitir en auk þess hefur hún hlotið fjölda stórra rannsóknarstyrkja til rannsókna á samspili erfða og heilsufarslegra afleiðinga sálrænna áfalla. Unnur er doktor í klínískri faraldsfræði sem hefur starfað stóran hluta lífs síns erlendis en fyrir 10 árum kom hún heim og kom á fót námi í lýðheilsuvísindum hérlendis. Nú eru Unnur og hennar teymi að ráðast í stórvirki með því að fá allar íslenskar konur, eldri en 18 ára til að taka þátt í rannsókn, þeirri stærstu sem lagt hefur verið í hér á landi og jafnframt er hún ein sú stærsta sinnar tegundar á heimsvísu. Áður en við förum ofan í saumana á því ætlar Unnur að segja lesendum frá sjálfri sér. Við byrjum á viðeigandi stað:

Hvaðan ert þú og þitt fólk?

„Ég er að norðan, ólst upp á Ólafsfirði. Móðir mín, Guðrún Jónsdóttir, er þaðan en föðurættin er úr Austur-Húnavatnssýslu, faðir minn, Valdimar Ágúst Steingrímsson, ólst upp á sveitabæ í Langadal og við eigum einmitt sumarhús þar sem við eyðum miklum tíma í.“

Er grunnt á sveitinni í þér?

„Já. Ég held að vinum mínum, sem eru flestir borgarbörn, finnist ég svolítið sveitaleg. Þegar ég flutti á mölina til að fara í háskólann var ég það sveitó að mér fannst sjúklega skemmtilegt að taka strætó. Var týpan sem þáði ekki far því mér fannst svo mikið stuð í vagninum. Það hefur kannski ekki alfarið þvegist af mér þótt ég hafi búið í borgum síðustu 25 ár. Mér finnst mikil svölun í því að vera nærri náttúru og einhvern veginn höfða svona grundvallar bóndaleg sjónarmið sterkt til mín. Á sumrin breytist ég í bóndakonu í Langadal, baka kleinur, prjóna og hjálpa til við heyskap.“

Unnur Anna Valdimarsdóttir.
Unnur Anna Valdimarsdóttir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þrátt fyrir bóndakonuna, þá sigldir þú úr heimahöfn, starfaðir erlendis í 10 ár og virðist í fljótu bragði ómengaður Vesturbæingur?

„Þetta er algjörlega tvöfalt lag í mér. Sem barn í sveitinni vissi ég alltaf að ég ætti ekki eftir að búa þar, vissi að ég ætlaði að læra og fara eitthvað, hafði mikla siglingaþrá. Ég kann því líka mjög vel við mig í borginni og því menningarlífi sem hún hefur upp á að bjóða. En kjarninn er sveitó.“

Það er ekki að ástæðulausu sem blaðamaður smalar Unni inn á bás Vesturbæinga en ýmis atriði styrkja þá staðalmynd. Hvern einasta morgun er hún til dæmis í Vesturbæjarlauginni og eiginmaður hennar, Pétur Marteinsson fótboltakempa með meiru, rekur Kaffi Vest. Saman eiga þau dótturina Lilju Hugrúnu.

„Við Pétur erum afar ólík að þessu leyti. Hann er hreinræktað borgarbarn, alinn upp í Breiðholti og líður alltaf pínu ónotanlega þegar Hvalfjarðargöngin nálgast. En hann lætur sig hafa það að vera með mér þennan bóndatíma minn á sumrin, þótt hann sé feginn þegar hann kemst aftur í espressóið sitt á morgnana. Sama hversu mikið ég væri í essinu mínu með mitt borgaralega sjálf þá er hann bara á annarri plánetu með sitt, líf hans og sál er hér.“

Rikki bakari skutlaði!

Bökkum aðeins í umhverfið sem mótaði þig.

„Mamma rak hárgreiðslustofu á Ólafsfirði sem var nokkurs konar kaffiumræðusjoppa um leið. Um tíma var stofan heima og maður kom heim eftir skóla, horfði á fínu lagningarnar verða til hjá konunum, karlana rakaða og hlustaði á allar sögurnar.

Á meðan mamma var í þessu var pabbi verkstjóri og starfsmaður Vegagerðarinnar og hafði eftirlit með öllum vegum í námunda við Ólafsfjörð, meðal annars hinum alræmda Ólafsfjarðarmúla. Þetta voru oft frekar hættuleg störf og ég man að þegar ég var 5 eða 6 ára féll snjóflóð á bílinn hans. Bíllinn fór út af þverhnípi niður í sjó. Hann náði að koma sér út, klöngraðist upp á veg og týndi giftingarhringnum einhvern veginn á leiðinni. Þótt ég væri fegin að sjá pabba, er minningin sem stendur eftir alltaf sú að hann fékk far heim með bakaranum á Dalvík. Það var nefnilega ekki bakarí á Ólafsfirði og í mínum augum var það hreinlega ævintýralega æðislegt að Rikki bakari hefði skutlað honum til baka!“

Móðurfjölskylda Unnar starfaði mikið í sjávarútveginum og öll sumur vann hún í fiskverkun afa síns og mágs hans, í saltfiski. Hún var því með salt undir nöglum og ísköld öll sumur, að salta og verka fisk, frá 10 ára til 17 ára aldurs, meira að segja í bónusvinnu.

Þetta hljómar svolítið eins og þú sért fædd 1952 en ekki 1972, í fullorðinsvinnu svona ung.

„Já og það fannst mér rosalega skemmtilegt. Ég vann með brjóstgóðu, notalegu og vitru eldra fólki sem hafði ýmsa fjöruna sopið. En vissulega var þetta alvöru. Maður byrjaði 20 mínútur í sjö á morgnana og vann langt fram eftir degi. En þetta vildi maður, ég var að safna mér fyrir nýjum skíðum og einhverju.

Ég get heldur ekki sagt frá æskunni án þess að nefna föðurömmu mína, Unni Þorleifsdóttur. Hún og afi, Jón Ellert Sigurpálsson, bjuggu hér um bil í næsta húsi og við systkinin þrjú áttum því tvö heimili. Amma var eins konar samviska þjóðar, mikill máttarstólpi og hélt utan um alla með miklum kærleik enda heitir stór hluti af hennar niðjum annað hvort Unnur eða Unnar. Það var eitthvað við hennar nærveru sem var bæði mjög hlýtt og skarpt. Hún var vel lesin, bæði um trúmál eins og hennar kynslóð en líka í heimspeki og siðfræði og svo var hún mikill kúnstner. Ræktaði graslauk og ýmislegt öðruvísi á hjara veraldar og nota hráefni í matseld sem aðrir voru ekki komnir langt með.“

Hún hljómar svolítið á undan sínum tíma?

„Hún var það. Ég sótti mikið í hana sem krakki, það þurfti að hafa svolítið ofan af fyrir mér, sjáðu til!“

Núna fer Unnur að útskýra og heldur því fram fullum fetum að sem barn hafi hún ekki setið eina stund kjur og þagað, lýsir sér sem fyrirferðarmiklu barni sem foreldrarnir hafi ekki einu sinni treyst sér til að hafa með í sumarfrí. Það verður að segjast að kynni blaðamanns af Unni eru þannig að hann á bágt með að trúa henni og það eiga víst fleiri líka.

„Ég held að í dag væri ég á mörkum ADHD-greiningar eða einhverrar hegðunarröskunar. Það þurfti mikið að hafa ofan af fyrir mér og mamma kunni sínar aðferðir. Ég nefnilega elskaði sögur og það eina sem gekk til að ég væri hljóð í smástund var að láta mig hlusta á söguna um Dýrin í Hálsaskógi á plötu. Ég náði að vera hljóð, stillt og prúð þennan klukkutíma en að öðru leyti var ég svolítið hæper, talaði mikið og var pínu óstýrilát.“

Og þetta eru engar ýkjur með að Unnur hafi verið send í pössun þegar foreldrarnir fóru í frí, að minnsta kosti fyrstu árin. Þá var hún send til frændfólks síns á Akureyri, móðurbróður, Lárusar Jónssonar alþingismanns, og eiginkonu hans, Guðrúnar Jónsdóttur, meðan mamma og pabbi keyrðu hringveginn.

Þú hljómar svolítið eins og þú hafir verið að springa úr lífsgleði, eða hvað?

„Já, ég held að ég hafi verið sérlega glaður krakki sem sá litlar hömlur á lífinu og þar af leiðandi mjög virk í öllu, æfði skíði, lærði á píanó, fiðlu og söng í kór.“

Í Kína á slóðir dótturinnar

Unnur og Pétur voru ung þegar þau kynntust en þrátt fyrir borgarblóðið í Pétri var hann um tíma á Ólafsfirði, lék þar knattspyrnu með Leiftri og þau Unnur kynntust í bæjarvinnunni, hún að verða tvítug og hann 19.

Hver er lykill ykkar að því að hafa verið saman allar götur síðan? Og svolítið meira saman en kannski mörg pör því þið bjugguð líka ein í útlöndum í lengri tíma.

„Okkar lykill er held ég bara að ... Pétur er mjög umburðarlyndur,“ segir Unnur og flissar. „Nei, nei, í fullri alvöru þá höfum við kannski bara gefið hvort öðru þetta frelsi til að gera það sem okkur þykir skemmtilegast á hverjum tíma. Ég vona og upplifi það ekki þannig að við höfum lagt einhver álög hvort á annað, þannig að það þurfi eitthvað ákveðið að vera að gerast, lífið eigi að vera nákvæmlega svona eða hinsegin. Við erum frekar samheldin og góðir vinir. Það er helst þessi borgar- og sveitaslagsíða sem vegur salt á milli okkar, að öðru leyti eru gildi og áhugamál samstillt.“

Áhugamálin eru þá hver?

„Klassísk og miðaldra, okkur finnst gaman að ferðast og svo höfum við bæði áhuga á matseld. Svo erum við miklir dýravinir, megnið af okkar samvistum höfum við átt hunda. Ferðalögin skipa háan sess en við höfum dregið dóttur okkar með í þetta allt þannig að hún er eins og þriðji aðilinn í þessu öllu, ekki sem barn heldur einstaklingur. Þegar við bjuggum með hana erlendis voru litlir möguleikar á að fá pössun þannig að við héldum bara fullorðinslífi okkar áfram með hana meðferðis í allt. Það hjálpaði að hún var afskaplega meðfærileg. Hún er borgarstelpa eins og pabbi sinn, sem kann að meta gott Bístró í París.“

Þið ferðuðust einmitt síðasta sumar saman til Kína, að heimsækja þær slóðir sem Lilja Hugrún er ættleidd frá.

„Já, það var stórkostlegt, við fórum í Asíu-reisu. Ég þurfti að fara á nokkra fundi og ráðstefnu þarna erlendis og það var búið að vera draumur okkar að fara aftur þangað sem við sóttum hana á sínum tíma, miklu sterkari draumur hjá okkur en henni kannski. Henni fannst það alveg áhugavert en sannfæringin um að þetta væri að einhverju leyti mikilvægt var sterkari hjá okkur, að þetta væri einhver varða sem við þyrftum að fara út í.

Við byrjuðum í Víetnam, vorum þar í 10 daga, svo fórum við yfir landamærin og hittum vini okkar en ég vinn með töluvert mörgu fólki frá Kína og þau voru á leið á ráðstefnu með mér. Þau hittu okkur í héraðinu hennar Lilju og ferðuðust með okkur um Kína, bæði hennar hérað og svo fórum við líka og heimsóttum heimkynni þeirra. Fórum meðal annars í Sisúann-hérað og skoðuðum pöndurnar en Lilja er líka mikil dýrakona, er að gera upp við sig hvort hún vilji vera David Attenborough eða Julia Roberts, dýralífsfræðingur eða leikari.“

Náðuð þið að ferðast um Kína þegar þið sóttuð Lilju eða var þetta fyrsta tækifærið?

„Þegar við sóttum hana fórum við á Múrinn og menningarreisu í Peking en við vorum fyrst og fremst upptekin af því að vera á leiðinni á fæðingardeildina, algjörlega með athyglina á henni og það voru bara pelar og bleyjur sem áttu huga okkar og ég upplifði Kína ekki á neinn hátt. Við erum mjög glöð með þessa ferð, þetta var eitthvað sem okkur langaði að gera þegar hún væri orðin eldri en samt ekki of gömul. Bara þetta að finna lyktina, borða matinn og slíkt var svo mikil upplifun.“

Heim á lokametrum góðæris

Hvað verður til þess að þú velur þessa leið í námi upphaflega, þegar þú ert búin með MA og ákveður að fara í sálfræði, sem endar á því að þú verður doktor í faraldsfræði?

„Ég var ákveðin í menntaskóla að ég vildi læra eitthvað tengt líffræði, sálfræði eða jafnvel læknisfræði. Hjá frábærum líffræðikennara í MA, Þóri Haraldssyni, myndaðist sterkur áhugi hjá mér á þessum fræðum. Svo æxlaðist það þannig að ég skráði mig í sálfræði um leið og ég útskrifaðist og varð strax áhugasöm um tengsl tilfinninga við líkamlega þætti.

Það er einmitt merkilegt að hugsa til þess að ég skrifaði lokaverkefni mitt úr Háskóla Íslands með Örnu Hauksdóttur sem ég vinn ennþá með, um tengsl áfalla við þróun krabbameina. Og það var fyrir 22 árum og við erum ennþá að rannsaka það sama! Enda verður þetta líklega nokkurra kynslóða verk að skilja þetta orsakasamhengi til hlítar.

Við Pétur vorum að spá í að fara til Bandaríkjanna, bæði í frekara nám. Þá fékk hann tilboð frá klúbbi í Stokkhólmi að spila þar og þangað lá leið okkar þegar ég var 24 ára gömul eða 1996. Þegar við vorum komin þangað skoðaði ég möguleikana á að læra áfram það sem ég vildi gera og var fyrst aðstoðarmaður prófessors við Karolinska áður en ég skráði mig inn í doktorsnám við Karolinska háskólann. Þar var ég í 6-7 ár, bæði sem doktorsnemi og nýdoktor. Við enduðum á að búa erlendis í 11 ár, bæði í Svíþjóð og svo Bandaríkjunum.“

Hvernig var að vera vísindamaður úti?

„Frábært. Svíþjóð er leikvöllur fyrir fólk í mínum bransa. Bæði er svo mikið af leikföngum, það er að segja gögnum, og rík hefð fyrir vísindum. Nóbelsverðlaunin eru veitt þaðan og almenningur veitir vísindunum mikla athygli. Framlag hins opinbera til vísinda er líka annað en það sem við eigum að venjast. Það er að mörgu leyti forréttindi að vera vísindamaður þarna úti.

Við hefðum alveg getað búið þarna áfram, en þegar við fengum Lilju breyttist lífið og það má segja að hún hafi verið hvatinn að því að við fluttum heim. Við vildum gjarnan að hún fengi að upplifa samskipti við stórfjölskylduna.“

Þið flytjið þá heim árið 2007, á lokametrum góðærisins fyrir hrun, hvernig var það?

„Einmitt, þetta er 2007, og líkt og margir útlendingar og Íslendingar sem höfðu verið fjarri heimahögum lengi skildum við ekki hvað var í gangi. Þrefaldir jeppar, hvítar innréttingar og skálað í kampavíni út um allt, þetta var svo ýktur veruleiki. Ég man að stuttu áður, þegar við bjuggum enn úti, höfðum við byrjað að fá spurningar frá útlendingum: „Af hverju eru Íslendingar svona ríkir?“ Ég man að ég hálfmóðgaðist, sagði að það væri bara ekkert rétt, þeir væru ekkert ríkir!“

En mér fannst frábært að koma heim. Ég var ráðin sem dósent við læknadeild og mínar helstu vinnuskyldur voru að koma á stofn og byggja upp framhaldsnám í lýðheilsuvísindum, þverfræðilegt masters- og doktorsnám og þetta var því annasamur tími. Klassískt var að eftir langan vinnudag lagði ég mig með Lilju á kvöldin, blundaði kannski í korter, hálftíma, vaknaði svo og kýldi í mig 500 grömmum af súkkulaði og vann áfram til 1-2 á nóttunni. Þetta var takturinn fyrst, en skemmtilegur tími með dásamlegu fólki innan háskólans.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaðinu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert