Funda vegna mögulegrar kæru

Frá kjörstað í Guðrúnartúni.
Frá kjörstað í Guðrúnartúni. mbl.is/Eggert

Gísli Tryggvason, lögfræðingur B-lista í stjórnarkjöri Eflingar-stéttarfélags, ætlar að funda með leiðtogum B-listans síðdegis í dag um hvort kæra verður lögð fram vegna kosningarinnar.

Gísli sendi formanni kjörstjórnar bréf með yfirlýsingu tveggja einstaklinga sem segja að kona sem starfar á skrifstofu Eflingar hafi hvatt konu sem er af erlendu bergi brotin til að kjósa A-listann er hún ætlaði að greiða utankjörfundaratkvæði.

Gísli Tryggvason.
Gísli Tryggvason. mbl.is/Eggert

„Áróður á kjörstað er auðvitað óheimill og getur haft áhrif á kosningar, samkvæmt almennum reglum og fordæmum,“ segir Gísli.

Magnús Norðdahl, formaður kjörstjórnar, sagði við mbl.is í morgun að kjörstjórn muni koma saman og taka ákvörðun í málinu ef henni berst kæra.

Gísli vonast til að kjörstjórn sýni frumkvæði í málinu og hefji á því rannsókn. „Ég er ekki viss um að það eigi að láta einstökum framboðum það eftir að móta stefnu í þessu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert