Formaður kjörstjórnar í stjórnarkjöri Eflingar-stéttarfélags segir það hafa verið inni í umræðunni að hafa kosninguna rafræna í ár.
„Alþýðusambandið hefur látið hanna fyrir okkur mjög gott kosningakerfi sem Advania heldur utan um. Það hefur verið notað við afgreiðslu kjarasamninga en ekki hjá Eflingu og alls ekki hjá öllum stéttarfélögum,“ segir Magnús Norðdahl, formaður kjörstjórnar.
„Það varð ofan á þessu tilviki að fara ekki að prófa rafrænar atkvæðagreiðslur í fyrsta skipti innan Eflingar akkúrat í þessu stjórnarkjöri,“ segir hann og bætir við að ákvörðun kjörstjórnar hafi ráðið því.
Til þess að allir félagsmenn hefðu möguleika á að kjósa var ákveðið að hafa utankjörfundaratkvæðagreiðslu í hálfan mánuð, auk þess sem kosning fer fram bæði í Reykjavík, Hveragerði og í Þorlákshöfn. Einnig verður kosningin opin til klukkan 20 í kvöld til að koma til móts við félagsmenn.
Magnús segir að stöðugur straumur hafi verið af fólki í húsnæði Eflingar í Guðrúnartúni í Reykjavík í dag og kjörsóknin verið mjög góð.