Sökuð um brot á kosningalögum

Frá stjórnarkjöri Eflingar í Guðrúnartúni í Reykjavík.
Frá stjórnarkjöri Eflingar í Guðrúnartúni í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Gísli Tryggvason, lögfræðilegur ráðgjafi B-lista í stjórnarkjöri Eflingar, sendi Magnúsi Norðdahl, formanni kjörstjórnar bréf með yfirlýsingu tveggja einstaklinga sem segja að kona sem starfar á skrifstofu Eflingar hafi hvatt konu sem er af erlendu bergi brotin til að kjósa A-lista er hún ætlaði að greiða utankjörfundaratkvæði.

Að sögn Magnúsar fylgdi engin kæra með bréfinu. Ef kæra berst síðar verður kjörstjórn kölluð saman og ákvörðun tekin í framhaldinu.

Greint var fyrst frá bréfinu á Vísi

Hann bætir við að eftirlitsmenn frá A- og B-lista hafi setið yfir kosningunni sem hófst í morgun á skrifstofu Eflingar í Reykjavík. Þeim stóð einnig til boða að sitja yfir allri utankjörfundaratkvæðagreiðslunni, sem stóð yfir í tvær vikur, en gerðu það ekki.

Í framboði eru A-listi stjórnar og trúnaðarráðs Eflingar og B-listi undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur. 

Ekki náðist í Gísla Tryggvason við vinnslu fréttarinnar.

Fyrir utan húsnæði Eflingar.
Fyrir utan húsnæði Eflingar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert