Sterk rök fyrir endurupptöku

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkissaksóknari telur sterk rök hníga til þess að endurupptökunefnd samþykki endurupptöku mála gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í maí í fyrra.

Jón Ásgeir birtir á vef sínum bréf sem Helgi Magnús Gunnarsson vararíkisaksóknari sendi í síðasta mánuði til endurupptökunefndar.

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu dæmdi að ís­lenska ríkið hafi brotið gegn hon­um og Tryggva þegar komi að banni við end­ur­tek­inni refsimeðferð. Jón Ásgeir var fyr­ir fjór­um árum dæmd­ur í skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir skatta­laga­brot í rekstri Baugs og fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums og til sekt­ar­greiðslu upp á tugi millj­óna króna. Taldi hann sig þegar hafa hlotið refs­ingu vegna máls­ins og tók Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn und­ir það.

Í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins sendi Jón Ásgeir erindi til endurupptökunefndar með beiðni um að mál hans frá 2012 yrði endurupptekið. 

„Embætti ríkissaksóknara hefur skilað tveimur umsögnum til endurupptökunefndar. Í þeirri fyrri kom fram að embættið teldi sterk rök hníga í þá átt að heimila bæri endurupptöku dóms Hæstaréttar. Í seinni umsögn ríkissaksóknara til nefndarinnar kom fram það álit embættisins að dómur Hæstaréttar sem fallið hafi eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í sambærilegu máli gefi ekki annað til kynna en að Hæstiréttur telji að brotið hafi verið gegn rétti Jóns Ásgeirs árið 2012,“ segir á vef Jóns Ásgeirs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert