Fjallað verður um hvort samþykkja eigi kröfu Valitors um dómkvaðningu nýrra undirmatsmanna í máli fyrirtækjanna Datacell og Sunshine Press Productions gegn Valitor í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.
Ágreiningur hefur verið uppi um það.
Að sögn Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns fyrirtækjanna, er litið svo á af hálfu stefnenda að verið sé að biðja um dómkvaðningu matsmanna til þess að svara sömu spurningum og þegar er búið að svara í yfirmati.
Datacell og Sunshine Press Productions, sem önnuðust rekstur greiðslugáttar fyrir Wikileaks, hyggjast fara í skaðabótamál gegn Valitor vegna þess að félagið ákvað einhliða og án fyrirvara að loka gáttinni árið 2011.
Spurningarnar sem biðja á matsmennina um að svara lúta að því hvert fjártjón Datacell og Sunshine Press Productions hafi verið við það að gáttinni hafi verið lokað í 617 daga.
Í síðasta mánuði var upplýst að fyrirtækin tvö fari fram á að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetji eignir Valitors fyrir sex og hálfan milljarð króna.
Að sögn Sveins Andra er kyrrsetningarbeiðnin í meðferð hjá sýslumanni.