Hlutfall þeirra sem segjast bera mikið traust til þjóðkirkjunnar, dómskerfisins og lögreglunnar mælist lægra en í fyrra, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í morgun. Ekki er um að ræða miklar breytingar á milli ára.
Traust til lögreglunnar lækkar um 8 prósentustig og sögðust 77% aðspurðra bera mikið traust til hennar. Traust til dómskerfisins lækkar um 7 prósentustig og mælist 36% og traust til þjóðkirkjunnar mælist 30%, 8 prósentustigum lægra en í fyrra.
Landhelgisgæslan er sem fyrr sú stofnun sem spurt er um í Þjóðarpúlsinum sem nýtur mests trausts, en hátt í 91% þeirra sem taka afstöðu bera mikið traust til hennar, sem er svipað hlutfall og síðustu ár.
Embætti forseta Íslands er í öðru sætinu í fyrsta skipti, en átta af hverjum tíu bera mikið traust til þess. Hlutfallið er svipað og í fyrra en þá hafði það hækkað mjög mikið frá árinu á undan, eða um 26 prósentustig.
Slétt 74% bera mikið traust til Háskóla Íslands, sem er svipað hlutfall og síðustu ár. Rúmlega 65% bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins, sem er örlítið hærra hlutfall en í fyrra. Ríflega 52% bera mikið traust til umboðsmanns Alþingis, rúmlega 48% til ríkissaksóknara og tæplega 47% til ríkissáttasemjara, sem eru svipuð hlutföll og í fyrra.
Bankakerfið nýtur einungis trausts 20% almennings, en það er þó 6 prósentustigum hærra en í fyrra. Aðrar stofnanir sem innan við þrír af hverjum tíu bera mikuð traust til eru borgarstjórn Reykjavíkur, Fjármálaeftirlitið og Alþingi. Traust til allra þessara stofnana eykst þó á milli ára.
Þátttakendur voru spurðir: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til [nafn stofnunar]? í netkönnun sem gerð var dagana 7. til 19. febrúar. Heildarúrtaksstærð var 1.429 og þátttökuhlutfall var 56,4%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.