Óskar upplýsinga um son sinn

Liðsmenn vopnaðra sveita Kúrda horfa yfir Maydanki-vatn í Afrin-héraði í …
Liðsmenn vopnaðra sveita Kúrda horfa yfir Maydanki-vatn í Afrin-héraði í Sýrlandi. Myndin er tekin 4. mars. AFP

Það lítur út fyrir að hann Haukur minn sé látinn,“ skrifar Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, sem sagður er hafa fallið í átökum í Sýrlandi, á vefsíðu sína. Tyrkneskir fjölmiðlar sögðu margir frá því í gær að Haukur hefði fallið í Afrin-héraði, skammt frá landamærunum að Tyrklandi, þar sem hann barðist við hlið sveita Kúrda. Í fréttum, sem m.a. eiga uppruna sinn í Facebook-færslu útlendingahersveitar sem Haukur er sagður hafa verið liðsmaður í, segir að hann hafi einnig barist gegn vígamönnum Ríkis íslams í Raqqa á síðasta ári. Hann er sagður hafa fallið í árásum Tyrkja og bandamanna þeirra þann 24. febrúar. 

Eva skrifar að hún viti ekki hvað gerðist þann dag umfram það sem sagt hefur verið frá opinberlega. Hún segir að margir undrist að ekki hafi verið haft samband við fjölskylduna áður en fréttinni var dreift á samfélagsmiðlum en segir ekki við því að búast af samtökum sem þessum.

Hún minnir á að utanríkisráðuneytið hafi beðið ræðismann sinn í Tyrklandi að reyna að fá fréttirnar staðfestar og sömuleiðis vinni alþjóðadeild ríkislögreglustjóra að því. Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá utanríkisráðuneytinu nú rétt fyrir hádegi hefur slík staðfesting enn ekki fengist. „Við erum með alla anga úti við að reyna að fá staðfestar upplýsingar,“ segir Þurý Björk Björgvinsdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu. Hún segir að ráðuneytið sé ennfremur í sambandi við aðstandendur Hauks. 

Þakklát fyrir kveðjur

Eva skrifar að fjöldi manns hafi haft samband við hana og sent sér kærleikskveðjur, jafnvel ókunnugt fólk. Fyrir það sé hún þakklát. „Ef einhver veit eitthvað sem getur varpað ljósi á það sem gerðist eða hvað annað hann Haukur minn var bardúsa síðasta árið, sendið mér þá tölvupóst á netfangið eva.evahauksdottir@gmail.com.“

Reykur stígur til himna í Afrin-héraði eftir loftárásir Tyrkja í …
Reykur stígur til himna í Afrin-héraði eftir loftárásir Tyrkja í útjaðri bæjarins Jandairis í vikunni. AFP

Aðgerðasinninn Haukur Hilmarsson vakti meðal annars athygli hér á landi fyrir að klifra upp á þak Alþingishússins í búsáhaldabyltingunni árið 2008 og draga Bónusfána að húni. Var hann handtekinn tveimur vikum seinna vegna sektar sem hann hafði fengið árið 2005 og vakti það mikla reiði. Fjölmennti fólk fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og var hann látinn laus eftir að sekt hans hafði verið greidd af ónendum manni.

Þá var Haukur um tíma virkur í umhverfisverndarsamtökunum Saving Iceland og síðar með samtökunum No borders, en þau hafa barist fyrir réttindum flóttafólks og hælisleitenda. Kom hann meðal annars að málum hælisleitandans Tony Omos og Paul Ramses. Í máli Ramses braust Haukur í félagi við annan mann inn á Keflavíkurflugvöll og stöðvaði tímabundið för flugvélarinnar sem Ramses var um borð í.

Haukur var einnig einn þeirra sem lokuðu veginum að Hellisheiðavirkjun í júlí 2007 í mótmælaskyni við byggingu virkjunarinnar. Var hann þá dæmdur ásamt móður sinni og sex öðrum fyrir brot á allsherjarreglu með að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem birtust í frétt tyrknesks miðils sem sagði fyrst frá málinu fór Haukur til Sýrlands með liðsmönnum RUIS hreyfingarinnar, en það eru hernaðarleg anarkistasamtök sem voru stofnuð árið 2015 og samanstanda aðallega af grískum sjálfboðaliðum sem hafa stutt Kúrda. 

Í færslu á Face­book-síðu In­ternati­onal Freedom Batalli­on, sam­taka sem Haukur er sagður hafa verið liðsmaður í, kem­ur fram að hann hafi ætlað sér að taka þátt í bar­áttu sam­tak­anna í Man­bij í Sýr­landi árið 2016. Hon­um hafi ekki tek­ist að kom­ast þangað. Hann hafi þó ekki gef­ist upp held­ur snúið aft­ur og þá til að taka þátt í orr­ust­unni í Raqqa sem lauk í fyrra en þar börðust sam­tök­in gegn upp­gangi víga­manna Rík­is íslams. Hann hafi svo snúið enn á ný til svæðis­ins til að verja Afr­in gegn herj­um Tyrkja. Í þeim bar­dög­um hafi hann fallið.

In­ternati­onal Freedom Batalli­on eru sam­kvæmt Wikipedia vopnuð sam­tök út­lend­inga sem bar­ist hafa í stríðinu í Sýr­landi og gegn Ríki íslams í Sýr­landi og Írak.

Ítrekað komið til átaka

Í Afr­in hef­ur ít­rekað komið til átaka, m.a. síðustu daga. Blandaðar her­sveit­ir und­ir stjórn tyrk­neska hers­ins hófu umsát­ur um Afr­in fyr­ir nokkr­um dög­um. Til­gang­ur aðgerðar­inn­ar var sagður vera sá að halda vopnuðum sveit­um Kúrda (YPG) frá landa­mær­um Tyrk­lands, en Tyrk­ir segja YPG vera úti­bú Verka­manna­flokks Kúr­d­ist­ans (PKK) sem lengi hef­ur bar­ist hart fyr­ir sjálf­stæði Kúr­da­héraða í Tyrklandi.

Tyrk­neski her­inn hóf fyr­ir nokkr­um vik­um að gera árás­ir á liðsmenn YPG og fékk til þess aðstoð frá sýr­lensk­um upp­reisn­ar­mönn­um. Í þeim árásum eru margir sagðir hafa fallið.

Frá Afrin í Sýrlandi.
Frá Afrin í Sýrlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka