Ný stjórn Eflingar-stéttarfélags verður með mjög róttækar áherslur sem verða í samræmi við málflutnings B-listans, sem vann stjórnarkjör Eflingar í gær undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttir.
Þetta segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is.
Spurð út í komandi kjarasamninga segir hún að kjósendur hafi greinilega hrifist af róttækum málflutningi B-listans, miðað við yfirburðakosninguna sem hann fékk, eða rúm 80 prósent atkvæða. „Auðvitað höfum við fengið umboð til þess að starfa eftir okkar hugsjón og hugmyndafræði. Við verðum með mjög róttækar áherslur.“
Hún segir B-listann hafa hafnað „hrikalegri láglaunastefnu“ í kosningabaráttunni. „Hún er algjörlega úr sér gengin „ömurð“. Sómakennd og réttlætiskennd verkafólks og láglaunafólks er svo rosalega misboðið um þessar mundir,“ segir Sólveig Anna og bendir einnig á „hrikalegar hækkanir hjá fólki sem hefur nú þegar aðgang að öllum gæðum samfélagsins en getur samt aldrei stoppað“. Þetta hafi einnig hjálpað framboðinu mjög mikið.
Hún segir gott gengi í kosningunni í gær vera sönnun á því sem framboðið hélt fram um stöðuna í íslensku samfélagi.
Sólveig Anna kveðst ekki ætla að sætta sig við þá þriggja prósenta hækkun sem rætt hefur verið um í komandi kjarasamningum. „Svona smotterís prósentuhækkanir duga engum í okkar stöðu nokkurn skapaðan hlut. Þetta hverfur í hítina samstundis, við tökum ekki einu sinni eftir þessu.“
Hún bætir við að í víðara samhengi snúist hlutirnir ekki bara um bætt launakjör heldur ósætti við þróunina í samfélaginu. Ný stjórn þurfi einnig að heyja þá baráttu.
Formaður VR hefur talað fyrir því að félagið gangi út úr ASÍ en Sólveig Anna naut stuðnings hans í framboði sínu. Spurð hvort Efling hyggist ganga út úr ASÍ segist hún ekki vera tilbúin að svara þeirri spurningu núna. Fyrsti vilji framboðið njóta sigurstundarinnar og ræða hitt þegar að því kemur.
„Auðvitað, með því að hafna því hátt og skýrt að það sé á okkar ábyrgð að axla allan þennan stöðugleika þá hlýtur fólk að sjá að við erum ekkert að sætta okkur við áframhaldandi áherslur innan þessa bákns.“
Sólveig Anna segir að hinn mikli meirihluti atkvæða sem B-listinn hlaut í kosningunni hafi komið sér mikið á óvart, þó svo að framboðið hafi verið mjög bjartsýnt þegar það fór að bera saman bækur sínar í kosningabaráttunni.
Hvað varðar þátttökuna í kosningunni, sem var tæplega 16%, segist hún hafa viljað sjá fleiri kjósa. Félagið hafi aftur á móti ekki gert félagsmönnum auðvelt fyrir að kjósa, til dæmis með því að hafa ekki rafræna kosningu.
„Félagsmönnum finnst það fáránlegt. Það er eitt af því fyrsta sem við munum reyna að breyta, að færa félagið inn í nútímann. Um leið og það gerist munum við strax sjá meiri þátttöku en ég held að miðað við hvernig þátttakan er almennt hjá félaginu séum við mjög sátt."
Skrifstofustjóri Eflingar hélt því fram á dögunum að framboð Sólveigar Önnu væri í raun framboð Sósíalistaflokksins, auk þess sem Sigurður Bessason, formaður Eflingar, hefur sagt það sama. Einnig var formanni kjörstjórnar sent bréf þar sem því var haldið fram að kona á skrifstofu Eflingar hafi hvatt konu sem er af erlendu bergi brotin til að kjósa A-listann sem naut stuðnings stjórnarinnar.
Spurð hvernig það leggist í hana að mæta til starfa 26. febrúar og taka við formennsku í Eflingu eftir það sem á undan er gengið segir hún að ef mjög mjótt hefði verið á munum í kosningunni hefði hún kviðið því að mæta til starfa. Með öruggri kosningu í gær hljóti félagsmenn sjálfir að krefjast stefnubreytingar. „Ég býst við að það verði mikil og góð samvinna,“ segir Anna Sólveig.