Aðgerðasinninn Haukur Hilmarsson var skotinn til bana í átökum við tyrkneska herinn sem nú hefur lík hans undir höndum samkvæmt heimildum mbl.is frá Afrin-héraði.
Einn heimildarmanna mbl.is, Mohammed Hassan, Kúrdi og blaðamaður í Sýrlandi, sem hefur unnið í lausamennsku fyrir fjölda fjölmiðla eins og CNN og The Guardian, sóttist eftir því að fá staðfestar fregnir af andláti Hauks fyrir mbl.is. Komst mbl.is í samband við Hassan fyrir milligöngu Mið-Austurlandadeildar bandaríska fjölmiðilsins Washington Post.
Samkvæmt heimildum hans frá háttsettum félaga innan vopnaðra sveita Kúrda, YPG, lést Haukur í skotárás tyrkneska flughersins en ekki í sprengjuárás. Reyndu liðsmenn YPG að komast að líki hans en urðu að hörfa frá. Tveir arabískir YPG-bardagamenn létust einnig í skotárásinni. Lík Hauks er því enn í höndum tyrkneska hersins en til stendur í náinni framtíð að skipta á líkum tyrkneskra hermanna og YPG-bardagamanna, þ.á m. líki Hauks, samkvæmt heimildum Hassans.
Móðir Hauks, Eva Hauksdóttir, segir í nýrri færslu á bloggsíðu sinni að fjölskyldu og vinum hafi í grófum dráttum tekist að púsla saman sögunni af ferðum Hauks. Þau telja sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að Haukur sé látinn.
„Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að YGP telji hann af og vitum nokkuð nákvæmlega hvar hann féll en við vitum ekki ennþá hvar líkið er. Kúrdar komast ekki inn á árásarsvæðið til þess að leita en það hefur verið leitað á öllum sjúkrahúsum í borginni og hann hefur ekki fundist. Í tyrkneskum fjölmiðlum hefur komið fram að Tyrkir séu með líkið og að það verði sent heim, en það hefur enginn haft samband við íslensk yfirvöld vegna þess og þetta gæti verið byggt á sögusögnum eða hreinlega áróðursbragð. Það er allt eins líklegt að hann hafi grafist undir rústum.“
Fjölskyldan átti fund með utanríkisráðuneytinu og lögreglunni í dag, en þar fengust engar viðbótarupplýsingar. Bæði lögreglan og ráðuneytið eru þó í sambandi við sendiráð og stjórnsýslustofnanir víða um heim.
Eva biðlar líka til þeirra sem gætu haft áreiðanlegar upplýsingar um hvar líkamsleifar Hauks gætu verið niðurkomnar að hafa samband við sig.