Hyggst leita leiðsagnar fólksins

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður Eflingar, starfar á leikskólanum Nóaborg …
Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður Eflingar, starfar á leikskólanum Nóaborg í Reykjavík. Hún var með börnunum í gærmorgun mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður Eflingar, hyggst nota næstu vikur til að móta stefnuna. Ný stjórn muni funda með félagsmönnum Eflingar og vinna að stefnumótun á lýðræðislegan hátt.

„Við viljum ekki koma með allt tilbúið. Við viljum enda gera þetta í mikilli samvinnu við fólkið í Eflingu,“ segir Sólveig Anna í Morgunblaðinu í dag.

Hún segist sem verkakona ekki hafa haft mörg tækifæri til að móta stjórnunarstíl. Hún sé róttæk og vilji lýðræðisvæða stéttarfélagið.

Spurð hvernig hún ætlar að undirbúa formennsku segist Sólveig Anna þurfa að gera það samhliða störfum á leikskólanum Nóaborg í Stangarholti í Reykjavík.

„Ég verð áfram í fullri vinnu þangað til og mun nota tímann sem ég hef ásamt félögum mínum til að hittast oft og mikið. Og til að skerpa áherslurnar. Við vorum mjög innblásin af vinnustaðafundum sem við áttum. Þar hittum við ótrúlega margt fólk. Við höfum rætt um að okkur langi til að nota tækifærið og halda þeim fundum áfram. Það er dálítið flókið að púsla þessu saman þegar fólk er í fullri vinnu. En við ætlum að reyna það og nota tækifærið þar til við tökum við [stjórn Eflingar]. Við ætlum að reyna að komast á sem flesta fundi.“

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir mikla reiði meðal félagsmanna vegna launaþróunar hjá efstu lögunum í samfélaginu. Fólki misbjóði úrskurðir kjararáðs og tugprósenta launahækkanir forstjóra og stjórnenda.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir kjör Sólveigar Önnu vera enn eitt ákallið um breytingar í samfélaginu. Fleiri „hallarbyltingar“ séu í vændum hjá verkalýðshreyfingunni.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir tekjulægstu hópana hjá ASÍ hafi fengið mestar launahækkanir undanfarin ár. Nú sé kominn tími til að gera betur við rafiðnaðarmenn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert