Sérsveitin kölluð út í Bríetartún

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið tvo einstaklinga í tengslum við yfirstandandi aðgerðir í Bríetartúni í Reykjavík. Hinir handteknu voru teknir höndum í íbúðarhúsi við götuna. Sérsveitarmenn eru á staðnum auk almennra lögreglumanna.

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir aðspurður í samtali við mbl.is að málið sé ekki tengt aðgerðum lögreglunnar á nokkrum stöðum í gær. „Það er kominn nýr dagur og ný mál,“ segir hann. Farið hafi verið inn í íbúðina og handtakan átt sér stað.

Lögreglan hafi verið að fylgja eftir vísbendingu sem henni hafi borist. Grunur hafi verið um að hnífar kæmu við sögu og því hafi sérsveitin verið kölluð til. Aðspurður segir hann skotvopnum hins vegar ekki hafa verið fyrir að fara.

„Við tökum sérsveitina með ef við erum ekki alveg vissir hvað er fyrir innan dyrnar, ef það eru einhverjir hnífar eða eitthvað slíkt. En það var ekkert slíkt. Við þurfum bara aðeins að greiða úr þessari flækju og sjá hvernig þetta lítur út. Það tekur eitthvað fram eftir degi.“

Uppfært kl. 10:29: Málið tengist tilkynningu um líkamsárás að sögn Jóhanns Karls. Hinir handteknu voru fluttir upp á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir eru að sofa úr sér vímu. Þeir verða síðan yfirheyrðir þegar þeir verða í ástandi til þess.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að sá sem varð fyrir árásinni hafi verið fluttur á slysadeild. Ekki er talið að um alvarlega áverka sé að ræða. 

Tilkynning lögreglunnar:

„Fjórir eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á líkamsárás í íbúð í austurborginni í morgun. Sá sem fyrir árásinni var var fluttur á slysadeild, en ekki er talið að um alvarlega áverka sé að ræða. Hinir handteknu verða yfirheyrðir síðar í dag, en þeir voru allir í annarlegu ástandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert