Óku bílnum á öfugan vegarhelming

Hollenskt par lést í banaslysinu í gær.
Hollenskt par lést í banaslysinu í gær. mbl.is/Sverrir

Parið sem lést í umferðarslysi á Lyngdalsheiðarvegi í gær var frá Hollandi, karlmaður fæddur 1992 og kona fædd 1995.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Þau óku bíl sínum, lítilli sendiferðabifreið, til vesturs, frá Laugarvatni, og virðist sem hann hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og lent framan á vörubifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt.  

Aðstæður á vettvangi til aksturs voru góðar, vegurinn auður og þurr og bjart í veðri.

Beðið er niðurstöðu krufningar auk þess sem unnið er að rannsókn ökutækjanna, athugun á ætluðum ökuhraða þeirra og úrvinnslu gagna sem aflað var á vettvangi slyssins.  Ljóst er að þetta tekur allt nokkurn tíma, að því er kemur fram í tilkynningunni. 

Lögreglan naut aðstoðar hollenskra yfirvalda við að upplýsa aðstandendur hinna látnu um slysið.

Engar vísbendingar um ástæður á vettvangi

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að enn eigi eftir að skýra hvers vegna bíll parsins fór yfir á öfugan vegarhelming. Ekkert á vettvangi gat sagt lögreglunni nákvæmlega til um það.

Öllum skýrslutökum vegna málsins lauk í gær.

Tveir karlmenn voru í vörubifreiðinni og meiddust þeir lítið sem ekkert í slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert