Um þriðjungur ungs fólks á aldrinum 13 - 15 ára er mjög sammála eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að það tali stundum ensku við íslenskumælandi fólk í aðstæðum þar sem allir skilja og tala íslensku. Um fjórðungur fólks á aldrinum 16 - 30 ára er mjög sammála eða frekar sammála sömu fullyrðingu en mjög fátt eldra fólk er sammála þessari fullyrðingu. Yngstu kynslóðinni þykir einnig ekki eins mikilvægt að vera góður í íslensku eins og þeim sem eldri eru.
Þetta kemur meðal annars fram í fyrstu niðurstöðum yfirgripsmikillar málfræðirannsóknar á stöðu íslensku og ensku á Íslandi sem verða kynntar í málstofunni, Stafrænt málsambýli íslensku og ensku, á Hugvísindaþingi á morgun. Rannsóknin beinist að áhrifum stafrænna miðla og snjalltækja, sem gjarnan bjóða upp á gagnvirk samskipti við notendur á ensku, á orðaforða, málkunnáttu og málnotkun Íslendinga og á stöðu og framtíð íslenskunnar. Fimm þúsund Íslendingar frá þriggja ára aldri og upp úr fengu boð um að taka þátt í rannsókninni.
„Þetta eru óvæntar niðurstöður og það kemur á óvart hversu hátt hlutfall þetta er. Við vissum að sumt ungt fólk talar stundum saman á ensku en við áttuðum okkur ekki á því að það gæti verið þriðjungur,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild, um enskunotkun við íslenskumælandi fólk. Hún er annar tveggja stjórnenda rannsóknarinnar en hinn er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði.
Sigríður bendir á að viðhorf til bæði íslensku og ensku gefi dýrmætar upplýsingar um stöðu tungumálsins. Þrátt fyrir að allir aldurshópar séu mjög sammála fullyrðingunni um mikilvægi þess að vera góður í íslensku þá eru það mun færri í yngri aldurshópnum en þeim elstu. Um 53% 13 -15 ára unglinga er mjög sammála því en mun fleiri í elsta aldurshópnum eða 88% þeirra sem eru 61 árs og eldri.
Hlutfallið er jafnara milli aldurshópa þegar spurt er um mikilvægi þess að vera góður í ensku en almennt eru 49% til 65% allra aldurshópa mjög sammála því. 49% elsta aldurshópsins eru mjög sammála því en hlutfallið er hæst í aldurshópnum 16-20 ára þar sem 65% eru sammála fullyrðingunni. Þeir yngstu, 13- 15 ára, telja jafn mikilvægt að vera góður í íslensku og ensku.
„Ef viðhorf til íslenskunnar er frekar neikvætt þá boðar það ekki gott fyrir íslenska tungu. Það hafa verið vangaveltur um að unga fólkið í dag líti á sig sem alheimsborgara, hluta af stærra alþjóðasamfélagi, og ekki endilega sem Íslendinga. Það sér framtíðina ekki endilega fyrir sér á Íslandi frekar en einhvers staðar annars staðar í heiminum og þá telja þau íslenskuna ekki gagnast sér,“ segir Sigríður.
Þetta viðhorf endurspeglast einnig í viðhorfi yngstu kynslóðarinnar til ensku í hinum ýmsu tækjum. Helmingur ungs fólks á aldrinum 13 - 20 ára er mjög sammála því að það gæti hugsað sér að nota ensku fyrir raddstýringu tækja, t.d. Sirí í iPhone, en það hlutfall lækkar stig af stigi við hækkandi aldur þátttakenda. Þessu er öfugt farið þegar spurt er um stillingar á íslensku í tækjunum. Þar kjósa flestir (50%-64%) sem eru 46 ára og eldri að hafa þær á íslensku en aðeins 9%-22% fólks á aldrinum 13-45 ára er mjög sammála þeirri fullyrðingu.
„Snjalltækin og alþjóðavæðingin eru komin til að vera en það þyrfti að breyta viðhorfinu til íslenskunnar,“ segir Sigríður og nefnir samræmdu prófin sem dæmi. Hún á dóttur sem þreytti þessi próf eða öllu heldur gerði tilraun til að taka þau á síðustu þremur dögum og þekkir því undirbúninginn nokkuð vel. Hún segir að þegar nemendur undirbúa sig fyrir próf í ensku og stærðfræði viti þau nokkurn veginn að hverju þau ganga en því sé öfugt farið með íslenskuna. Það er einnig verið að prófa þau úr efni sem þau eiga eftir að læra í 10. bekk grunnskóla. Það finnst mér siðferðilega rangt, segir Sigríður.
„Í íslenskuprófinu er alltaf verið að hanka þau. Við ætlumst til að þau séu með málkennd og máltilfinningu sem er löngu horfin úr íslensku. Fólkið sem liggur í Hólavallakirkjugarði myndi líklega standa sig mjög vel í samræmda prófinu í íslensku,“ segir Sigríður. Hún nefnir sem dæmi að enn sé verið að ætlast til að börn viti að það eigi að segja: Þeir ásökuðu hvor annan en ekki hvorn annan. Þarna er um aldagamla málbreytingu að ræða og „meira að segja mér þykir eðlilegra að segja hvorn annan þrátt fyrir að ég sé búin að leggja hið rétta á minnið því ég er prófessor í íslenskri málfræði,“ segir Sigríður og brosir.
Í samræmdu prófunum eru alltaf einhverjir sem fá 10 í stærðfræði og ensku en enginn fær þá einkunn í íslensku, held ég, og 9,5 er mjög sjaldgæft. „Við erum alltaf að brjóta börnin niður og hanka þau í íslenskunni í staðinn fyrir að byggja þau upp og hrósa þeim fyrir hvað þau séu góð í íslensku,“ segir Sigríður.
Hún segir viðhorfsbreytingu til tungumálsins mikilvæga. Við þurfum að horfast í augu við það að íslenskan breytist eins og önnur lifandi tungumál. Á tímum aukinnar enskunotkunar í íslensku málsamfélagi og alþjóðavæðingar er enn mikilvægara enn áður að við hömpum íslenskunni og byggjum upp jákvætt viðhorf til hennar, sérstaklega hjá börnum og unglingum því þau eru fjöregg íslenskunnar.
Sigríður tekur fram að þessar fyrstu niðurstöður séu einungis toppurinn á ísjakanum því enn á eftir að vinna frekar úr þessum niðurstöðum fyrir 13 ára og eldri sem og fyrir aldurshópana frá þriggja til tólf ára.
Fjölmargir nemendur í doktorsnámi og á meistarastigi og grunnnámi vinna að rannsókninni. Hluti þeirra flytur erindi í málstofunni en alls verða flutt níu forvitnileg erindi. Hér er dagskrá Hugvísindaþings og hér er dagskrá málstofunnar Stafrænt málsambýli íslensku og ensku sem hefst laugardaginn 10. mars kl. 10.30 og stendur til kl. 16.30 í stofu 102 í Lögbergi.
Þess má geta að Rannsóknasjóður veitti á vormánuðum árið 2016 þriggja ára öndvegisstyrk til verkefnisins sem ber heitið Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis.