Opnað hefur verið fyrir umferð um Suðurlandsveg og sér lögreglan um að stýra henni til að greiða úr þeirri biðröð sem hefur myndast, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Allir þeir sem voru í bílunum tveimur sem lentu í árekstri skammt fyrir austan Kirkjubæjarklausturs síðdegis voru fluttir af slysstað með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Ekki liggur fyrir hversu alvarlega þeir eru slasaðir en þeir voru allir með meðvitund á slysstað. Þyrlan lenti með þá við Landspítalann í Fossvogi um klukkan 19.
Tilkynnt var um áreksturinn til lögreglunnar á Suðurlandi klukkan 16:10 og var strax ákveðið að senda tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar á slysstað. Önnur þyrlan var síðan afturkölluð skömmu síðar þar sem ljóst var að hægt væri að flytja þá slösuðu með einni þyrlu á sjúkrahús.