Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir manndráp með því að hafa stungið albanskan karlmann á þrítugsaldri, Kelvis Sula, til bana í desember. Þá er hann einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa lagt til annars manns þannig að hann hlaut skurðsár víða um líkamann og slagæðablæðingu á fæti.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni frá því að hann var handtekinn eftir árásina 3. desember.
Í ákærunni kemur fram að Sula hafi verið stunginn í bringu vinstra megin þannig að hnífurinn gekk inn í hjartað. Notaðist árásarmaðurinn við hníf með 9,5 sentímetra löngu blaði. Þá var hann einnig stunginn í öxl og tvívegis í bakið.
Sula lést af sárum sínum fimm dögum eftir árásina, en áverkinn á hjartanu var banvænn og samkvæmt ákæru málsins höfðu önnur skurðsár áhrif á andlát hans.
Hinn maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut stungusár í bakið, í öxl, upphandlegg og kálfa og náði síðastnefnda stungan ofan í slagæð og olli slagæðarblæðingu.
Er ákært fyrir brot á 211. Grein almennra hegningarlaga, en hún nær til manndráps og er lágmarksrefsing fyrir slíkt brot fimm ára fangelsi og getur orðið allt að ævilöngu fangelsi.
„211. gr. Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“
Í einkaréttakröfur fara foreldrar Sula fram á samtals 20 milljónir í miskabætur auk kostnaðar við útför sonar þeirra. Þá fer hinn maðurinn sem varð fyrir árásinni fram á 3,2 milljónir í bætur.